Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/13204
Þessi ritgerð fjallar um Magnús Stephensen (1762-1833) dómstjóra landsyfirréttarins á þeim tíma sem hann var strandaglópur í Björgvin í Noregi árin 1807-1809. Stopular skipakomur vegna ófriðarins í Evrópu á þessum árum höfðu í för með sér verulegan skort á innfluttum nauðsynjavörum af öllu tagi á Íslandi. Var því brýnt að greiðari skipakomur yrðu tryggðar svo landsmenn liðu ekki nauð. Rannsakað er hver þáttur Magnúsar var í að leysa þau vandamál sem til komu vegna siglingateppunnar. Mest aðkallandi var að koma íslensku versluninni í gang aftur. Í því fólst helst að endurheimta skip íslensku verslunarinnar sem voru flest hertekin og gerð upptæk af Bretum í byrjun stríðsins 1807. Jafnframt var mikilvægt að hvetja aðra kaupmenn til verslunar við landið. Magnús tók rösklega á málum og hóf að sannfæra dönsku stjórnina um nauðsyn þess að senda kaupskip til landsins. Auk þess stóð hann stöðugt vaktina við að hvetja norska kaupmenn til að senda kaupfar til Fróns.
Þungamiðja rannsóknarinnar eru sjö 200 ára gömul bréf sem Magnús skrifaði Bjarna Thorsteinssyni, sem þá starfaði sem kópíisti í Rentukammerinu í Kaupmannahöfn, á árunum 1808-1809 og gefa nú fyllri mynd af athöfnum Magnúsar í Björgvin til viðreisnar versluninni við Ísland. Bréfin eru alls um 30 uppskrifaðar síður og fylgja þau með í viðauka, ásamt skýringum. Fyrri hluti ritgerðarinnar fjallar um Magnús Stephensen, ætt hans og lífshlaup. Greint er frá ástandinu á Íslandi og í Evrópu á stríðstímanum. Að endingu eru bréfin greind og sett í sögulegt samhengi.
Aðal rannsóknarspurning þessarar ritgerðar er hvort Magnús hafi verið bjargvættur Íslands á þessum óvissutímum. Það var hann sem hafði samband við Sir Joseph Banks í London strax haustið 1807 og hratt af stað röð atburða sem leiddi til lausnar íslensku kaupskipanna. Þar að auki var það honum að þakka að send voru tvö til þrjú önnur skip til Íslands 1808-1809, og er sérstaklega fjallað um þær aðgerðir Magnúsar í ritgerðinni. Niðurstaðan er sú að Magnús Stephensen hafi átt verulegan þátt í að afstýra alvarlegu neyðarástandi á Íslandi á þessum árum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Bryndís Bjarnadóttir_BA_ritgerð_Sagnfræði.pdf | 1,64 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |