is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13537

Titill: 
  • Friðhelgi einkalífs barna. Málshöfðunaraðilar í faðernismálum
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Faðernismál eru dómsmál til að skera úr um rétt faðerni barns. Samkvæmt 10. gr. núgildandi barnalaga frá árinu 2003 eru þeir sem geta höfðað slík mál, barnið sjálft, móðir barnsins og maður sem telur sig föður barns sem ekki hefur verið feðrað. Þetta þýðir að karlmaður sem telur sig geta verið faðir ákveðins barns, getur ekki óskað eftir því að fá úr því skorið fyrir dómstólum, ef móðir barnsins hefur þegar feðrað barnið öðrum karlmanni. Hann telst ekki aðili að málinu og hefur því ekki málshöfðunarrétt. Í köflunum hér á eftir verður fjallað um lagaþróun á þessu ákvæði, en allt fram til ársins 2003 gátu karlmenn yfirhöfuð ekki verið aðilar að faðernismálum heldur einungis móðirin og barnið sjálft. Í kjölfar hæstaréttardóms árið 2000 var það talið brjóta gegn ákvæði 65. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar að takmarka rétt karlmanna til að höfða faðernismál. Í frumvarpi til nýrra barnalaga árið 2003 má segja að löggjafinn hafi ætlað að bregðast við dómnum með því að heimila þeim karmönnum sem telja sig geta verið föður barns, að höfða faðernismál. Í frumvarpinu var sú heimild algjörlega óháð því hvort viðkomandi barn væri þegar feðrað eða ekki. Þetta ákvæði var hins vegar þrengt við meðferð frumvarpsins á Alþingi á þann hátt að réttur karlmanna til að höfða faðernismál var takmarkaður við ófeðruð börn. Þessi takmörkun hefur verið umdeild og hafa komið fram frumvörp á Alþingi um breytingar á þessu ákvæði en þau ekki náð fram að ganga.
    Fjallað verður um ástæður og rökstuðning Alþingis fyrir því að takmarka rétt karlmanna í þessari stöðu við ófeðruð börn og hagsmuni barnanna sjálfra. Börn njóta friðhelgi einkalífs til jafns við fullorðna og því má halda fram með nokkru sanni að barn geti verið betur sett með þann föður sem það hefur alist upp hjá. Þannig geti hagsmunir barns af því að njóta áfram fjölskyldu sinnar verið ríkari en hagsmunir af því að þekkja „réttan föður“ og þurfa að þola það tengslarof sem því geti fylgt. Á sama hátt má líka færa rök fyrir því að það sé rof á friðhelgi einkalífs barns að lögin skuli ekki veita því algjöran forgang að þekkja uppruna sinn sbr. 1. gr. barnalaga sem fær stuðning í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ekki er hægt að horfa framhjá réttindum karlmanna til fjölskyldulífs og komið hafa fram þær skoðanir að löggjafinn hafi hugsanlega brotið stjórnarskrá með því að hafa áðurnefnda takmörkun í lögunum og með því ekki brugðist að fullu við niðurstöðu ofangreinds hæstaréttardóms frá árinu 2000 . Staða móðurinnar hefur einnig komið upp í umræðunni og því hefur verið haldið fram að núverandi takmörkun í lögunum sé til að verja hana og hennar friðhelgi til einkalífs.
    Málshöfðunaraðild í faðernismálum verður skoðuð í víðara samhengi. Athyglisverður dómur Mannréttindadómstólsins reifaður, en þar er fjölskyldulíf barnsins ekki rofið þó svo að gengið sé úr skugga um faðerni þess. Einnig verður rýnt í norsk barnalög, en málshöfðunar-réttur karlmanna þar er ekki takmarkaður við að barn sé ófeðrað. Skoðaðar verða ástæður og rökstuðningur fyrir því að leyfa karlmönnum í Noregi að höfða faðernismál óháð þvi hvort barn sé feðrað eða ekki. Í lokin verða niðurstöður reifaðar, helstu atriði og ályktanir dregnar saman.

Samþykkt: 
  • 17.12.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/13537


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
1.LOKAUTGAFA.TIL.AD.SKILA.pdf311.4 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Karl Kápa.pdf105.97 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna