Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/13588
Fyrning sakar hefur þau áhrif að lögum að ríkisvaldið glatar rétti til að krefjast þess að brotamaður sæti refsingu eða öðrum viðurlögum fyrir brot sín. Sök brotamanns í refsiréttarlegum skilningi er þá fyrnd og verður hann þar af leiðandi ekki sakfelldur fyrir háttsemi sína. Tilganginn að baki fyrningar sakar má helst rekja til þjóðfélagslegra hagsmuna. Þjóðfélagslegir hagsmunir krefjast síður aðgerða af hálfu hins opinbera ef langt er liðið frá broti þar sem tíminn dregur úr refsiþörf. Talið er að það fari í bága við allsherjarreglu að einstaklingur þurfti sífellt að eiga hættu á því að verða ákærður fyrir refsiverðan verknað sinn og sæta í kjölfar refsingu. Slíkt getur valdið gríðarlegri röskun í lífi manns, einkum ef hinn brotlegi hefur snúið frá villu síns vegar og ekki brotið af sér frekar. Þegar verulegur tími hefur liðið frá framningu verknaðar er einnig hætta á að ýmislegt fari forgörðum, eins og t.d. minningar um verknaðinn, áþreifanleg sönnunargögn og sjáanlegir áverkar, ef þeir voru einhverjir. Með því að setja skýr tímamörk hvað varðar fyrningu sakar, er löggjafinn að koma í veg fyrir að niðurstaða dómstóla verði reist á óáreiðanlegum grunni.
Reglur um fyrningu sakar er að finna í almennum hegningarlögum frá 12. febrúar 1940 nr. 19/1940 (hér eftir skammstöfuð sem hgl.) Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. hgl. fyrnist sök ýmist á tveimur, fimm, tíu eða fimmtán árum og fer lengd fyrningarfrests eftir hámarksrefsingu sem getur legið við broti. Upphaf fyrningarfrests ber að miða við þann dag, er refsiverðum verknaði lauk. Meginreglan er sú að öll brot eru fyrnanleg nema þau sem varða ævilöngu fangelsi. Með lögum nr. 61/2007, um breytingu á almennum hegningarlögum, hefur verið gerð sú undantekning að alvarleg kynferðisbrot gegn börnum yngri en 18 ára fyrnast ekki, þrátt fyrir að þau varði ekki þyngstu mögulegu refsingu. Fyrningarfresturinn byrjar ekki að líða fyrr en eftir 18 ára aldur brotaþola. Um er að ræða viðbrögð löggjafans í kjölfar aukinnar vitundarvakningar á síðastliðnum árum á eðli og afleiðingum kynferðislegs ofbeldis gegn börnum. Lagarökin að baki fyrningarreglum almennra hegningarlaga hafa sætt breytingum. Löggjafinn telur nú að tillitið til brotaþola, sérstaða kynferðisbrota gegn börnum sem og langvarandi afleiðingar þeirra fyrir þolendur vegi þyngra á vogarskálunum en tillit til meints brotamanns, rannsóknarhagsmuna og erfiðrar sönnunarstöðu. Áherslan á verndarhagsmuni barnsins er nú allsráðandi. Börn skortir bæði líkamlegan og andlegan þroska til kynferðislegra athafna. Því sé ljóst að veita þurfi þeim nauðsynlega vernd gegn því ofbeldi sem kynferðisbrot fela í sér og eiga breytingarnar að koma í veg fyrir að fyrningarfrestur sé liðinn þegar börn hafa loks náð þeim þroska sem þarf til að gera sér grein fyrir því að um refsivert brot hafi verið að ræða.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Aðalbjörg Guðmundsdóttir_ritgerð.pdf | 741,19 kB | Lokaður til...01.06.2050 | Heildartexti |