is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13595

Titill: 
  • Um tjáningarfrelsi og meiðyrði: Mál Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu
  • Titill er á ensku Freedom of expression and defamation: Case study of Björk Eiðsdóttur v. Iceland (46443/09) and Erla Hlynsdóttir v. Iceland (43380/10)
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í öllum meiðyrðamálum er það viðfangsefni dómstóla hversu langt menn mega ganga í tjáningu sinni án þess að þeir verði beittir þeim viðurlögum sem kveðið er á um hverju sinni. Þar með þurfa dómstólar að skera úr um það hvort beiting refsiákvæðis til verndar æru og mannorði gengur of langt til skerðingar á tjáningarfrelsi einstaklings og ræðst þá niðurstaðan af hagsmunamati dómstóla um það hvort vegur þyngra, réttindi þeirra sem ærumeiðingin beinist að, eða réttindi manna til að tjá sig. Í greinargerð með frumvarpi að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kom fram að tjáningarfrelsið væri meðal vandmeðförnustu mannréttinda sem ekki væri hægt að njóta, án ábyrgðar og væri því nauðsynlegt að setja þessu frelsi ýmsar skorður vegna tillits til hagsmuna annarra einstaklinga. Þeir hagsmunir annarra einstaklinga sem hér er vikið að eru rétturinn til æruverndar og friðhelgi einkalífs sem nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar skarast hagsmunir af því að njóta tjáningarfrelsis og hagsmunir af því að njóta friðhelgi einkalífs, verður meðal annars litið til þess hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og átt þannig erindi til almennings. Er um að ræða tvo andstæða póla þar sem stöðug spenna og togstreita er á milli og sýna dæmin að sífellt verða árekstar á milli þessara mikilvægu verndarsviða. Leikast því hér á tveir þættir mannverndar þar sem mörkin á milli þessara tveggja sviða eru ekki fyrirfram gefin hverju sinni, heldur háð margvíslegu mati á viðeigandi lagareglum.
    Mál Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu eru gott dæmi um þessa spennu og togstreitu en í málunum reyndi á álitamál er snertu bæði friðhelgi einstaklingsins og mikilvægi réttarins til frjálsrar tjáningar, en hinn 10. júlí sl. kvað dómstóllinn upp dóma í málum tveggja íslenskra blaðamanna þar sem talið var að Ísland hefði brotið gegn 10. gr. MSE. Í báðum þessum málum var komist að þeirri niðurstöðu fyrir innlendum dómstólum að greinarskrif Erlu Hlynsdóttur í DV annars vegar og Bjarkar Eiðsdóttir í Vikunni hins vegar hefðu falið í sér meiðandi ummæli. Viðkomandi ummæli sem deilt var um í þessum málum voru að meginstefnu í tengslum við starfsemi nektardansstaða hér á landi. Í máli Bjarkar var sakfellt fyrir meiðyrði vegna ummæla um vændi og starfssemi nektardansstaða en í máli Erlu var umfjöllunarefnið átök á milli eigenda nektardansstaða. Í báðum málunum var sakfellt fyrir meiðandi aðdróttun sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 . Umræðan á Íslandi getur verið fjörleg á köflum svo ekki sé minnst á stóryrðin og sleggjudómana sem látin eru falla. Í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem íslenska ríkið var talið hafa brotið gegn viðkomandi blaðamönnum spratt upp mikil umræða í fjölmiðlum og í samfélaginu vegna niðurstöðu dómstólsins. Stór og þung orð voru látin falla í umræðunni og mátti sjá stórar fyrirsagnir í fjölmiðlum sem báru þess merki að um mikilsvert mál væri að ræða. Mannréttindadómstóllinn taldi að sú framkvæmd íslenskra dómstóla, að gera blaðamenn ábyrga fyrir ummælum viðmælenda sinna hamlaði með alvarlegum hætti möguleikum fjölmiðla til að taka þátt í umræðu sem varðar almenning miklu. Gagnrýni Mannréttindadómstólsins á vinnubrögð íslenskra dómstóla var hörð og var það niðurstaða dómstólsins að íslenskir dómstólar hafi virt að vettugi þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er að rýna í dóma Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í sumar og einnig dóma Hæstaréttar og héraðsdóms sem MDE taldi að brotið hefðu gegn 10. gr. MSE. Í fyrstu tveimur köflum ritgerðarinnar verður fjallað um þau mannréttindaákvæði sem bera höfuð og herðar yfir aðrar reglur fjölmiðlaréttarins, þ.e. tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífs. Þar á eftir verður í kafla 4 gerð grein fyrir lögfestingu MSE sem lögtekinn var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Áður en lengra er haldið verður einnig vikið að fleiri atriðum er snerta sáttmálann t.a.m. endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem óneitanlega er bundinn órjúfanlegum tengslum við MSE og fordæmisgildi úrlausna MDE. Þá tekur við í kafla 5 umfjöllun um ábyrgðarreglur fjölmiðlaréttarins er snerta prentmiðla og verður áherslan lögð á ábyrgð blaðamanna á ummælum viðmælenda þeirra, og dómaframkvæmd rakin ítarlega. Loks verður í köflum 6-8 fjallað efnislega um dóma MDE sem kveðnir voru upp í sumar og þeim gerð ítarleg skil en einnig verður umfjöllun um dóma héraðsdóms og Hæstaréttar sem kærðir voru til MDE. Þá verða niðurstöður dregnar saman í kafla 9. Að því loknu verður sjónum beint að nýlegum dómum Hæstaréttar, og þeir kannaðir með hliðsjón af niðurstöðu MDE í málum Bjarkar og Erlu, en í þessum tilteknum dómum var blaðamönnum gert að greiða skaðabætur vegna meiðandi ummæla í prentmiðlum og hafa tveir þessara dóma meðal annars verið kærðir til MDE þar sem talið er að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt gegn 10. gr. MSE. Lokaorð ritgerðinnar verða dregin saman í kafla 11.

Samþykkt: 
  • 7.1.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/13595


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Vilhjalmur_Þor_Svansson.pdf795.99 kBLokaður til...01.01.2113HeildartextiPDF