is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13609

Titill: 
 • Ákvörðun skaðabóta vegna andláts tjónþola
 • Titill er á ensku Determination of Damages following Death
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Ritgerðin lýsir reglum íslensks réttar um ákvörðun skaðabóta vegna andláts tjónþola. Einkum er fjallað um ákvörðun bótafjárhæða.
  Kröfur um skaðabætur vegna andláts eru í megindráttum þrenns konar. Í fyrsta lagi geta eftirlifandi maki, börn og aðrir sem voru á framfæri þess sem lést átt rétt til bóta fyrir missi framfærslu. Í öðru lagi geta þeir sem bera kostnað sem andlát hefur í för með sér, einkum útfararkostnað, átt rétt til skaðabóta vegna hans. Og í þriðja lagi geta maki, börn og foreldrar einstaklings átt rétt til miskabóta vegna andláts hans.
  Bætur til aðstandenda vegins manns hafa þekkst frá fornu fari. Þær voru þó af öðrum toga en reglur nútímans þar sem áherslan er á að bæta tjón aðstandenda. Skaðabótareglur vegna andláts mótuðust aðallega fyrir dómstólum fram að setningu skaðabótalaga nr. 50/1993. Í lögunum var kveðið á um bótarétt vegna missis framfæranda og útfararkostnaðar. Með lögum nr. 37/1999 um breytingu á lögum nr. 50/1993 var bætt við lögin heimild til að dæma miskabætur til nánustu aðstandenda hins látna.
  Í lögum nr. 50/1993 eru reglur um fjárhæð skaðabóta vegna missis framfærslu maka eða foreldris. Skaðabætur til maka skulu nema þrjátíu prósent af þeim bótum sem hinn látni hefði átt rétt á fyrir algera örorku, sbr. 1. mgr. 13. gr. Sú fjárhæð ræðst einkum af tekjum þess sem lést og aldri á dánardegi, sbr. 5. til 9. gr. Skaðabætur til barns sem þeim sem lést var lögskylt að framfæra skulu vera jafnháar heildarfjárhæð barnalífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar til átján ára aldurs barnsins, sbr. 14. gr. Bætur fyrir missi framfærslu til annarra en maka og barna eru ekki staðlaðar.
  Hæfilegur útfararkostnaður verður dæmdur þeim sem stóð straum af kostnaðinum. Annar kostnaður kann einnig að vera bættur ef hann stendur í nægum tengslum við andlátið. Fjártjón annarra en nánustu aðstandenda, svo sem þeirra sem voru í viðskiptasambandi við þann sem lést, verður þó almennt ekki bætt.
  Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skbl. er heimilt að gera þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur. Við afmörkun á því hverjir geti átt bótarétt samkvæmt ákvæðinu verður fremur litið til tilfinningalegra tengsla við þann sem lést heldur en fjárhagslegra tengsla. Dómstólar hafa við ákvörðun fjárhæðar bótanna einkum litið til sakar tjónvalds og atriða sem gefa til kynna umfang tjóns.

Samþykkt: 
 • 8.1.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/13609


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ákvörðun skaðabóta vegna andláts tjónþola.pdf755.71 kBLokaður til...01.01.2023HeildartextiPDF