is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13613

Titill: 
 • Áhrif eignarhalds á rekstrarárangur íslenskra innlánsstofnana
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Í rannsókn þessari var reynt að komast að því hvort eignarhald hefði haft marktæk áhrif á rekstrarárangur íslenskra innlánsstofnana á tímabilinu 1997 til 2007. Helstu virðishvatar í rekstri innlánsstofnana voru metnir og hvort rekstrarárangur hefði breyst eftir einkavæðingu innlánsstofnana á árunum 1998 til 2003.
  Í upphafi rannsóknar voru árangursmælikvarðar skilgreindir til að mæla gæði rekstrar á tímabilinu 1997 til 2007. Út frá þeim skilgreiningum sést að rekstur íslenskra innlánsstofnana var hvað lakastur á árunum 2006 til 2007 á sama tíma og bókhaldsleg afkoma var best. Bestu rekstrarár íslenskra innlánsstofnana voru á árunum 2001 til 2003 er bókhaldsleg afkoma var hvað lökust. Framangreind niðurstaða um rekstrarárangur íslenskra innlánsstofnana, sem sýnir að reksturinn var hvað lakastur á árunum 2006 til 2007, gæti fengið menn til að efast um að rekstur innlánsstofnana sé best geymdur í höndum einkaaðila. Rekstrarárangur fyrir einkavæðingu, eða árin 1997 til 2002, var því skoðaður og hvort marktækur munur væri á rekstrarárangri innlánsstofnana í ríkiseigu, hlutafélagaformi eða sparisjóðaformi. Niðurstöðurnar voru að grunnrekstur innlánsstofnana í ríkiseigu var marktækt lakari.
  Í framhaldinu var rannsakað hvort rekstrarárangur innlánsstofnana í ríkiseigu batnaði eftir einkavæðingu en miðað við framangreinda niðurstöðu hefði mátt búast við að svo væri. Niðurstöðurnar voru fremur afgerandi líkt og í fyrra tilfellinu. Ómarktækur munur var á grunnrekstri innlánsstofnana í ríkiseigu fyrir og eftir einkavæðingu. Hins vegar var bókhaldsleg afkoma mun betri og fékkst neikvæð fylgni milli bókhaldslegrar afkomu og eignarhlutar ríkis.
  Niðurstaða þessarar rannsóknar er sú sama og fékkst í rannsókn Mohammeds Omran á rekstrarárangri egypskra innlánsstofnana út frá eignarhaldi (Omran, 2003). Einkavæðing innlánsstofnana í Egyptalandi þótti almennt hafa mistekist og batnaði rekstur innlánsstofnana ekki við einkavæðingu (Megginson, 2003). Draga má þá ályktun að ástæða þess að lakur rekstur innlánsstofnana á Íslandi í ríkiseigu batnaði ekki í kjölfar einkavæðingar hafi verið vegna mistaka við framkvæmd einkavæðingar. Form eignarhalds virðist ekki skipta þar aðalmáli.
  Árið 1997 þegar ákvörðun var tekin um einkavæðingu viðskiptabankanna var íslenskt bankakerfi smátt og vanmáttugt til að mæta lánsþörf fyrirtækja og heimila í landinu. Heildarstærð bankakerfisins nam 70% af VLF eða rúmlega 800 ma.kr. að núvirði. Það samsvarar stærð Arion banka í dag. Einnig einkenndist markaðurinn af fákeppni og í raun var aðeins einn keppinautur, Íslandsbanki, við ríkisreknu viðskiptabankana Búnaðarbanka og Landsbanka. Íslensku sparisjóðirnir voru flestir of smáir til að veita viðskiptabönkunum harða samkeppni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að helstu virðishvatar í rekstri innlánsstofnana í framangreindu umhverfi voru fjármunatekjur og stjórnunarkostnaður eða stærðarhagkvæmi. Samkeppnislög hömluðu sameiningu, en stærð íslenskra innlánsstofnana var langt undir hagkvæmustu stærð. Landsbanki og Búnaðarbanki voru milli 250 ma.kr. og 300 ma.kr. í lok árs 2002 sem var einn tíundi af hagkvæmustu stærð. Til að ná fram aukinni skilvirkni í rekstri virðist aðeins einn kostur hafa verið fær og það var að stækka erlendis.
  Niðurstaða rannsóknarinnar styður ekki hugmyndir sem fram komu fyrst eftir bankahrunið og getið er í skýrslu Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, Framtíðarskipan fjármálakerfisins, um að takmarka beri stærð og erlenda starfsemi innlánsstofnana (Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, 2012). Hafa verður í huga að innlendar innlánsstofnanir eru litlar og fremur óhagkvæmar einingar í rekstri og langt frá hagkvæmustu stærð. Ef íslenskar innlánsstofnanir eiga að geta þjónað íslenskum fyrirtækjum á erlendri grundu verða þær að hafa bolmagn og aðstöðu til slíks.

Athugasemdir: 
 • Ritgerðin er læst í eitt ár með leyfi kennslustjóra.
Samþykkt: 
 • 8.1.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/13613


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerd-final.pdf1.05 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna