Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/1362
Mikill áhugi er á þátttöku og sjálfræði einstaklinga með fötlun eða langvinna sjúkdóma meðal heilbrigðisstarfsmanna og í samfélaginu. Hver upplifun þeirra er og hvað geti aukið eða hamlað þátttöku þeirra eða sjálfræði. Tilgangur rannsóknaráætlunarinnar er tvíþættur: Annarsvegar að afla upplýsinga um hvernig einstaklingar meta möguleika sína á þátttöku eftir endurhæfingu auk upplifunar þeirra af sjálfræði í daglegum athöfnum og í hvaða athöfnum líkamlegar afleiðingar heilablóðfalls valda þeim erfiðleikum. Hins vegar að afla upplýsinga um notagildi íslenskrar þýðingar og staðfæringar á matstækinu Impact on Participation and Autonomy (IPA).
IPA er sjálfsmatslisti ætlaður einstaklingurm eldri en 18 ára með fötlun eða langvinna sjúkdóma og er hann byggður á flokkunarkerfi Alþjóða Heilbrigðisstofnunarinnar, International Classification of Functioning, Disability and Health (ICF). Einstaklingurinn fyllir sjálfur út listann og lætur þannig í ljós eigin upplifun af möguleikum sínum til þátttöku og sjálfræðis í daglegum athöfnum og hvaða athafnir valda honum erfiðleikum. Matslistinn samanstendur af 32 atriðum sem raðast á 5 kvarða, þ.e. sjálfræði innandyra, fjölskylduhlutverk, sjálfræði utandyra, félagsleg samskipti og vinna og menntun.
Rannsóknarþýðið eru einstaklingar sem verið hafa í endurhæfingu og við val á þátttakendum verður hentugleikaúrtak notað. Megindleg rannsóknaraðferð með lýsandi tölfræði verður notuð við úrvinnslu gagna. Rannsóknin er fyrsta skrefið í að koma matslistanum í notkun hér á landi og mun nýtast breiðum hópi einstaklinga sem eru í endurhæfingu sem og þeim sem hafa lokið henni. Vænta má að þær upplýsingar sem fást með listanum gefi vísbendingar um hvernig styðja megi einstaklinga í endurhæfingu til aukinnar þátttöku í samfélaginu og til aukins sjálfræðis.
Lykilorð: ÁÞS, þátttaka, sjálfræði, sjúklingar með heilablóðfall, heilablóðfall,
iðjuþjálfun.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
sjalfraedi.pdf | 498.05 kB | Opinn | Þátttaka og sjálfræði - heild | Skoða/Opna |