is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13742

Titill: 
 • Auðlindir, færni og árangur. Samband óefnislegra auðlinda, markaðslegrar færni og árangurs
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Árið 2010 fengu Griffith, Yalcinkaya og Calantone birtar niðurstöður rannsóknar sinnar sem sneri að sambandi óefnislegu auðlindanna fjögurra (mannauðs, upplýsingaauðs, tengslaauðs og skipulagsauðs) og markaðslegrar færni sem heildar. Rannsóknina gerðu þeir meðal innflutningsfyrirtækja í Japan og Bandaríkjunum. Niðurstaðan var sú að mannauður og tengslaauður hefðu jákvæð tengsl við markaðslega færni í báðum löndum en einnig reyndust vera tengsl milli skipulagsauðs og markaðslegrar færni í Bandaríkjunum. Engin rannsókn hefur, eftir því sem höfundur kemst næst, hins vegar kannað tengsl óefnislegu auðlindanna og einstakra tegunda markaðslegrar færni.
  Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tengsl óefnislegu auðlindanna fjögurra, fimm tegunda markaðslegrar færni (færni í vöruþróun, verðlagningu, stjórnun dreifileiða, markaðssamskiptum og stjórnun markaðsmála) og árangurs. Tengslin voru skoðuð með tilliti til stærðar fyrirtækja og eftir því hvort um þjónustufyrirtæki eða framleiðslufyrirtæki var að ræða, en með því var einnig varpað ljósi á atriði sem ekki höfðu áður verið könnuð. Einnig voru heildartengsl óefnislegra auðlinda, markaðslegrar færni og árangurs skoðuð. Rafrænn spurningalisti var sendur á netföng 777 stjórnenda fyrirtækja á Íslandi sem hafa fleiri en 10 starfsmenn. 107 svör, sem fullnægðu kröfum rannsóknarinnar, bárust.
  Þegar samband óefnislegu auðlindanna fjögurra og hinna fimm tegunda markaðslegrar færni var skoðað kom í ljós að allar óefnislegu auðlindirnar höfðu tengsl við einhverja tegund markaðslegrar færni. Að sama skapi höfðu allar tegundir markaðslegrar færni tengsl við að minnsta kosti eina af auðlindunum. Óefnislegu auðlindirnar reyndust allar hafa jákvæða fylgni við markaðslega færni sem heild, en upplýsingaauður og tengslaauður voru með mestu fylgnina. Fylgni greindist milli markaðslegrar færni og árangurs, hvort sem litið var á markaðslegan árangur eða fjárhagslegan.
  Þegar auðlindirnar fjórar voru settar saman í eina breytu kom í ljós fylgni milli óefnislegra auðlinda, markaðslegrar færni og árangurs. Aðhvarfsgreining leiddi í ljós að tengsl óefnislegu auðlindanna og árangurs hurfu þegar markaðsleg færni var sett inn sem miðlunarbreyta og því eru tengsl óefnislegra auðlinda við árangur óbein í gegnum markaðslega færni.
  Mesta athygli vakti hversu gríðarlega mismunandi samband óefnislegu auðlindanna og markaðslegu færninnar er eftir stærð fyrirtækja. Sem dæmi greindist fylgni milli einstakra auðlinda og tegunda markaðslegrar færni aðeins hjá fyrirtækjum með 10-50 starfsmenn. Einnig reyndist vera mikill munur eftir því hvort um þjónustufyrirtæki eða framleiðslufyrirtæki var að ræða.

Athugasemdir: 
 • Lokuð af höfundi til 20.1. 2016. Opnuð í lok júlí 2013 þar sem undanþága hafði ekki borist frá deild né kennslusviði.
Samþykkt: 
 • 11.1.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/13742


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Auðlindir, færni og árangur Helgi Héðinsson.pdf854.76 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna