Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/13752
Í þessari ritgerð er athugað hvernig til hefur tekist við að ná niður vanskilahlutfallinu í íslensku fjármálakerfi eftir hrunið. Hægt er að reikna hlutfall útlána í vanskilum eftir lánþega, útláni eða afborgun. Einnig er hægt að reikna það út frá kröfuvirði eða bókfærðu virði lána auk fleiri þátta. Fyrir Ísland gefur vanskilahlutfall, reiknað út frá lánþega og bókfærðu virði, gleggstu myndina af stöðu undirliggjandi lánabóka. Frá ársbyrjun 2008 hækkuðu vanskil mikið á hér á landi og náðu þau hámarki í 36,2% í apríl 2010 en í nóvember 2012 voru þau búin að lækka niður í 15,6%. Vanskilahlutfallið hjá fyrirtækjum náði hámarki í ágúst 2010 í 47,4% en var búið að lækka niður í 16,8% í nóvember 2012. Vanskil einstaklinga náðu hámarki í júlí 2010 í 22,5% en voru komin niður í 14,4% í nóvember 2012. Aðstæður hérlendis og viðbrögð voru ágæt varðandi lausn á vandanum vegna vanskila. Einstaklingar með hæfilega menntun og þjálfun voru til staðar og löggjöfin og dómstólarnir voru ágætlega í stakk búin til að fást við úrvinnslu vanskila. Skattalöggjöfinni var breytt til að auðvelda fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og einstaklinga.
Segja má að stóru viðskiptabankarnir hafi eftir hrunið beitt þremur meginaðferðum til að taka á vanskilum viðskiptavina sinna. Þeir sömdu um frystingu, skilmála- eða höfðustólsbreytingu á lánum. Höfðustólsbreytingar voru algengasta úrlausnin fyrir fyrirtæki en skilmálabreytingar fyrir einstaklinga í nóvember 2012. Bankarnir voru að mestu hættir að beita frystingum vegna fyrirtækja í júní 2010 og vegna einstaklinga um mitt ár 2011. Eftir því sem líður á endurskipulagningu á fjárhag einstaklinga og fyrirtækja verður sífellt stærri hluti vanskila af heildarvanskilum hjá einstaklingum sem erfiðar hefur verið að greiða úr. Því má búast við að það hægist á lækkunarhraða vanskila næstu misseri. Íslensk stjórnvöld gætu mögulega sett aukin þrýsting á fjármálafyrirtækin til að lækka vanskilahlutfallið hraðar. Slíkur þrýstingur gæti þó verið tvíbentur því rangur þrýstingur og rangir hvatar geta gert illt verra. Árangur Íslands í lækkun vanskila er ágætur miðað við reynslu annarra þjóða sem hafa lent í fjármálakreppu. Miðað við þróun vanskila hjá Tælandi og Indónesíu eftir Asíukreppuna árið 1997 má búast við að það taki mörg ár í viðbót að vinna vanskil á Íslandi niður í ásættanlega stöðu. Meginniðurstaða þessarar ritgerðar er að endurskipulagning útlána á Íslandi hafi tekið eðlilegan tíma.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Úrvinnsla vanskila í íslenska fjármálakerfinu.pdf | 1.31 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |