Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/13929
Markmið þessarar rannsóknar var að skoða einkenni og afbrotahegðun þeirra sem dæmdir voru fyrir kynferðisbrot á Íslandi á árunum 2001-2011. Í rannsókninni var farið nákvæmlega yfir 381 dóm frá árinu 2001 til ársins 2011. Dómarnir snéru að öllum greinum kynferðisbrotakafla almennu hegningarlaganna, nr. 19, frá 12. febrúar 1940. Útbúinn var gagnagrunnur í SPSS sem innihélt í heildina 60 breytur sem náðu yfir þær upplýsingar sem unnt var að finna í endurriti af dómunum. Endurritin af dómunum eru ekki stöðluð að öllu leyti þannig að í sumum dómum getur vantað upplýsingar um hegðun eða aðstæður sem teljast mikilvægar og koma fram í öðrum dómum. Þetta veldur því að talsvert var um brottfallsgildi í niðurstöðum. Lýsandi tölfræði var að mestu leyti notuð til þess að gera grein fyrir niðurstöðum, auk þess sem tengsl á milli breyta voru skoðuð og voru kí-kvaðratpróf notuð til þess að álykta um hvort tölfræðilega marktækur munur væri á milli hópa og t-próf til að kanna marktækt á muni á meðaltölum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kynferðisbrot gegn börnum séu ólík brotum gegn fullorðnum að mestu leyti, þrátt fyrir að meðalaldur gerenda sem brjóti gegn börnum og fullorðnum hafi reynst nánast sá sami. Einungis í fimm tilfellum braut gerandi gegn barni og fullorðnum og einungis í tveimur tilfellum voru brot bæði gegn stúlku og dreng. Gerendur höfðu mjög sjaldan framið kynferðisbrot áður (svo vitað væri) en þegar um brot gegn börnum var að ræða, höfðu gerendur að jafn stórum hluta framið endurtekin og stök brot gegn þeim þolanda sem um var að ræða hverju sinni. Oftar var um endurtekin brot að ræða þegar mikil tengsl voru á milli geranda og barns en brot gegn ókunnugum börnum voru frekar stök. Kynferðisbrot gegn fullorðnum þolendum voru í flestum tilfellum stök brot sem áttu sér stað á nóttunni og gerandi og þolandi voru í meirihluta tilfella báðir undir áhrifum áfengis. Rannsóknin er liður í að auka þekkingu á kynferðisbrotum en mikilvægt er að hafa í huga að niðurstöðurnar lýsa aðeins þeim kynferðisbrotum sem fara fyrir dóm og takmarkast við upplýsingar sem gefnar eru upp í dómsskjölum hverju sinni. Ekki ætti að alhæfa um kynferðisbrot á Íslandi út frá þeim.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mastersverkefni GuðrúnSesselja 28.jan.pdf | 1,08 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |