Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14123
Alþjóðavæðingunni fleytir hratt fram og með hraðri tækniþróun í samgöngum, fjarskiptum og iðnaði, eykst hagkvæmni og skilvirkni samhliða aukinni samkeppni í viðskiptum og auknum hagvexti. Jákvæð áhrif alþjóðavæðingarinnar eru greinileg en er hægt að segja að það sé algilt fyrir allar þjóðir og heimsálfur? Smáríki eins og Ísland geta ekki nýtt sér kosti alþjóðavæðingarinnar nema að takmörkuðu leyti. Smæðin og einhæfni í framleiðslu kemur í veg fyrir það. Vanþróuðum löndum hefur einnig reynst erfitt að færa sér alþjóðavæðinguna í nyt og þar hefur hún jafnvel haft neikvæð áhrif á hagvöxt og almenn lífsskilyrði.
Í ritgerðinni er fjallað um sjö fyrirfram tilgreinda ytri áhættuþætti sem smáríkinu Íslandi getur staðið efnahagsleg ógn af í náinni framtíð. Þessir áhættuþættir eru menningarmunur, efnahagslögsaga og landgrunnur, sögulegur réttur, stjórnarfar, mannréttindi, hryðjuverk og efnahagslegar ógnanir. Spurt er yfir hvaða vörnum við búum og við hvaða aðstæður þessir þættir kæmu til með að hafa áhrif á velferðakerfið. Til þess að tryggja fjölþætta nálgun var framkvæmd skoðanakönnun til samanburðar við þá greiningu sem í rannsókninni felst.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að Íslandi stendur mismikil ógn af upptöldum áhættuþáttum. Verndun efnahagslögsögunnar og landgrunnsins vega þyngst og þær varnir sem helst ber að huga að í því sambandi eru verndun fiskistofnana fyrir ofveiði og mengun auk efnahagslegra áhrifaþátta eins og hruns á alþjóðamörkuðum. Í alþjóðasamskiptum vega þessir áhættuþættir mismikið eftir því hvort um sé að ræða deilu eða önnur samskipti við ríki, ríkjasambönd, alþjóðasamtök eða stórfyrirtæki. Rík ástæða er til að skilgreina áhættumat í alþjóðasamskiptum og milliríkjaviðskiptum. Athyglisverð niðurstaða úr skoðanakönnuninni bendir samt til þess að fólk er ekki tilbúið að beita slíku áhættumati til að takmarka viðskipti við ríki sem teljast áhættumeiri í viðskiptum. Kannski er þetta til marks um áhættusækni íslendinga en önnur skýring gæti verið sú að þrátt fyrir að fólk kjósi að vera sér meðvitað um áhættu telji það ekki jafn æskilegt að verjast henni sem slíkri.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
B.Sc._lokaverkefni_Bjarni_Daníelsson.pdf | 1,67 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |