Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/14159
Íslendingar hafa löngum verið taldir meðal fremstu þjóða í heimi þegar kemur að upplýsingatækni. Íslendingar eru nýjungagjarnir, tæknivæddir og yfirleitt fljótir að innleiða nýja tækni sem er til þess fallin að auðvelda þeim lífið. Samkvæmt Hagstofunni (2012) eru 96% heimila með tölvu og þar af geta 95% tengst Internetinu.
Í nútímasamfélagi vinna margir oftast fulla vinnu utan heimilis, ásamt því að reka heimili og sinna barnauppeldi. Lítill tími er aflögufær til að sinna tómstundum og stunda búðarráp. Til þess að koma til móts við viðskiptavini bjóða fyrirtæki upp á netverslun þar sem viðskiptavinurinn getur skoðað vöruúrvalið, borið saman valkosti, pantað sér þá vöru sem hann hefur áhuga á og fengið hana senda heim að dyrum.
Þrátt fyrir þessi þægindi hefur netverslun á Íslandi ekki vaxið sem skyldi síðustu ár. Velta netverslana hefur aukist í miklum mæli í nágrannalöndum okkar undanfarin ár á meðan íslensk netverslun hafa staðið í stað. Þó er hægur vöxtur nú í netverslun á Íslandi, en aðallega er keypt af erlendum netsíðum.
Viðfangsefni þessarar rannsóknar var að skoða kauphegðun Íslendinga á Netinu. Hvað fær fólk til að kaupa á Netinu og hvar, hvenær og hvers vegna velur það einn valkost fram yfir annan. Til að skilja neytandann betur eru einnig skoðaðir helstu áhrifaþættir sem stjórna kauphegðun fólks og reynt að ná utan um hvað stendur netverslun helst fyrir þrifum. Sett var fram rannsóknarspurningin:
Hvað einkennir kauphegðun Íslendinga á Netinu?
Rafræn spurningarkönnun var send út og svöruðu 761 þátttakendur könnuninni. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að yfirgnæfandi meirihluti svarenda hefur verslað vöru á Netinu. Vinsælasti vöruflokkurinn á Netinu er þjónusta eins og sala farmiða og ferðatengd þjónusta, miðar á viðburði og í kvikmyndahús og fleira í þeim dúr. Einnig er keypt mikið af afþreyingu og afþreyingarefni. Athyglisvert er hversu margir svarendur hafa haft samband við starfsfólk netverslana fyrir og eftir kaup á vöru á Netinu. Konur vilja geta haft samband þegar þær kaupa fatnað og fylgihluti en karlar þegar þeir kaupa tölvu- eða rafeindabúnað.
Lykilorð: Kauphegðun, netverslun, rafræn viðskipti, neytendahegðun, Internetið
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
ChristinaGregers_4eintok.pdf | 1.6 MB | Open | Heildartexti | View/Open |