Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/14272
Fjöldi barna hér á landi elst upp við óæskilegar uppeldisaðstæður og meirihluti þeirra hlýtur vitsmunalegan, félagslegan eða líkamlegan skaða vegna þessa.
Í ritgerðinni var reynt að komast að niðurstöðu varðandi hvað það er sem gerir það að verkum að sum börn sem alast upp við slíkar aðstæður hljóta ekki skaða. Rannsóknarspurningarnar eru eftirfarandi: Hvað er það sem gerir það að verkum að sum börn sem alast upp við mótlæti spjara sig og hver er máttur samfélagsins - hvaða áhrif geta íbúar samfélagsins haft á það hvort börn sem alast upp við mótlæti ná að spjara sig?
Skrifin eru aðallega byggð á erlendum fagbókum, innlendum og erlendum ritrýndum fræðigreinum og tölulegum upplýsingum héðan frá Íslandi. Kynntar eru þær kenningar úr félagsráðgjöf sem þóttu passa best við viðfangsefnið og fjallað um nokkra áhættu- og varnarþætti sem koma fyrir í lífi þessara barna. Auk þessa er fjallað um þær bjargir sem börn sem búa við óæskilegar uppeldisaðstæður geta nýtt sér til að komast hjá eða draga úr skaða.
Helstu niðurstöður eru þær að um samspil erfða og umhverfis sé að ræða en ákveðin skapgerðareinkenni skipta miklu máli í samspili við þætti úr umhverfinu. Seigla og samkennd eru þættir sem nýtast börnum vel til að vinna gegn mótlæti. Seigla er ferli sem er háð samspili ólíkra þátta en samkennd er hugarfar sem hægt að temja sér með ákveðnum aðferðum. Hvað varðar samfélagið er mikilvægt að almenningur og þeir aðilar sem starfa náið með börnum séu meðvitaðir um hvað þeir geta haft mikil áhrif á líðan og framtíð barna sem búa við erfiðar heimilisaðstæður. Nauðsynlegt er að gripið sé strax inn í leiki grunur á því að barn búi við óæskileg skilyrði, en því fyrr sem gripið er inn í því meiri eru líkurnar á að koma í veg fyrir eða draga úr mögulegum skaða.
Með utanaðkomandi stuðningi, seiglu og samkennd að vopni eiga þessi börn sér von um bjarta framtíð.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Fíflabörnin Börnin sem spjara sig.pdf | 415,37 kB | Open | Heildartexti | View/Open |