Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/14273
Rannsóknir á sanngirni innan fyrirtækja hafa sýnt að upplifuð sanngirni starfsmanna getur skýrt hegðun þeirra, afköst, viðhorf gagnvart vinnustaðnum, starfsánægju, hollustu við fyrirtækið og líðan starfsmanna. Upplifuð sanngirni innan fyrirtækja gegnir því mikilvægu hlutverki innan vinnusálfræði bæði hérlendis og erlendis. Árið 2001 gaf Colquitt út mælitæki sem mælir upplifaða sanngirni, sanngirnikvarða Colquitts. Kvarðinn metur fjóra undirþætti upplifaðrar sanngirni innan fyrirtækja, sanngirni í úthlutun (distributive justice), sanngirni í verklagi og ferlum(procedural justice), sanngirni í upplýsingagjöf (informational justice) og sanngirni í samskiptum (interpersonal justice). Atriði kvarðans byggja á skilgreiningu hugtaksins og kvarðann er hægt að laga að mismunandi aðstæðum. Markmið þessarar rannsóknar var að þýða sanngirnikvarða Colquitts og kanna próffræðilega eiginleika kvarðans í íslensku úrtaki. Innri áreiðanleiki undirkvarða sanngirni var kannaður sem og réttmæti. Réttmæti var metið á tvennan hátt. Í fyrsta lagi var athugað hvort þáttabygging listans héldi í íslensku úrtaki og hins vegar hvort samband væri á milli undirþátta upplifaðrar sanngirni og kenningarlega tengdra hugtaka. Kvarðinn var þýddur af þremur sérfræðingum og fékk einn hlutverk dómara á þýðingunum. Þátttakendur voru 449 háskólanemar úr þremur háskólum víðsvegar að af landinu. Kvarðanum var svarað rafrænt. Áreiðanleiki allra undirþátta íslenskrar útgáfu sanngirnikvarða Colquitts var viðunandi og hærri en í upprunalegri útgáfu kvarðans í Bandaríkjunum. Staðfestandi þáttagreining staðfesti fjögurra þátta líkan kvarðans í Bandaríkjunum og voru tengsl undirþátta við kenningarlega tengd hugtök sambærileg og í bandarísku úrtaki. Á heildina litið lofar íslensk útgáfa sanngirnikvarða Colquitts góðu sem nýtt mælitæki á Íslandi til að meta upplifaða sanngirni starfsmanna.
Lykilorð: Sanngirni innan fyrirtækja, Sálfræði, Vinnusálfræði, Próffræði
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Sanngirni innan fyrirtækja_Meistaraverkefni 2013 Lokaeintak.pdf | 721.58 kB | Open | Heildartexti | View/Open |