Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/143
Þunglyndi er algengasta geðröskunin í heiminum og um leið helsta orsök örorku. Rannsóknir sýna að líkurnar á að fá þunglyndi einhvern tímann á lífsleiðinni eru næstum tvöfalt meiri hjá konum en körlum og eru konur á barneignaraldri í mestri áhættu.
Í þessari megindlegu rannsókn var könnuð og metin andleg líðan kvenna á aldrinum 19 - 30 ára á þjónustusvæði Heilsugæslunnar í Fjarðabyggð. Einnig voru kannaðar orsakir andlegrar vanlíðunar, hvaða úrræði konurnar notuðu til að meðhöndla hana og hvaða þjónustu þeim þótti vanta í heimabyggð á sviði geðheilbrigðis. Úrtaki 50 kvenna var póstsendur spurningalisti er innihélt m.a. Edinborgar þunglyndiskvarðann sem var notaður til að meta andlega líðan þátttakenda. Rannsakendum bárust 13 svör.
Helstu niðurstöður voru að meirihluti þátttakenda, 61,5%, virtist laus við andlega vanlíðan. Að líkindum áttu um 38,5% kvennanna við andlega vanlíðan að stríða, flestar svo alvarlega að hugsanlega flokkaðist hún undir þunglyndi. Svo virðist sem hjúskaparstaða hafi ekki haft áhrif á andlega líðan þátttakenda og hjónaband því ekki verndandi þáttur í þessari rannsókn ólíkt mörgum öðrum. Fleiri mæður með barn yngra en ársgamalt höfðu einkenni um verulega andlega vanlíðan en aðrar rannsóknir sýna en menntun virtist hafa verndandi áhrif gegn andlegri vanlíðan sem er í samræmi við aðrar rannsóknarniðurstöður. Andleg vanlíðan var algengari hjá konum í fullri vinnu en þeim sem voru í hlutastarfi en mest hjá heimavinnandi konum sem kemur heim og saman við aðrar rannsóknarniðurstöður.
Helstu ástæður andlegrar vanlíðunar voru áfall fyrr á ævinni og einhvers konar ofbeldi vó þungt hjá hluta kvennanna. Margar konur fundu fyrir aukinni andlegri vanlíðan tengdri tíðahringnum og vissum árstímum og aðrir og einstaklingsbundnir þættir áttu þátt í vanlíðan tæplega helmings þátttakenda.
Úrræðin sem konurnar notuðu helst til að meðhöndla andlega vanlíðan sína voru að hreyfa sig eða ræða við aðra. Tilgáta höfunda um að konunum þætti vanta þjónustu á sviði geðheilbrigðis í heimabyggð þeirra var studd.
Rannsóknarniðurstöðurnar sýna að andleg vanlíðan er algengari meðal þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókninni en kvenna almennt. Tilgáta höfunda um að andleg vanlíðan kvenna á þjónustusvæði heilsugæslunnar í Fjarðabyggð væri jafn algeng og jafn slæm meðal kvenna á sama aldri á þjónustusvæði Ísafjarðarbæjar var studd.
Sjúkdómsgreining skiptir verulegu máli fyrir rétta meðferð þunglyndis. Landsbyggðin, þ. á. m. Fjarðabyggð, nýtur ekki sama aðgengis að sérfræðiþjónustu á sviði geðheilbrigðis og íbúar höfuðborgarsvæðisins en höfundar telja fulla ástæðu til að bjóða upp á sérfræðiþjónustu í Fjarðabyggð á þessu sviði.
Lykilorð: Konur, andleg líðan, þunglyndi, hormónastarfsemi, félagsleg staða.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Andleg_Lidan_Kvenna_ALB_MK_PSG.pdf | 4.02 MB | Opinn | Heildarskrá | Skoða/Opna |