Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14387
Skuldajöfnuður er einföld og hagvæm leið til greiðslu á kröfu. Með skuldajöfnuði er aðalkröfu og gagnkröfu lokið með því að þær eru látnar jafnast hvor á móti annarri án þess að peningar eða fjármunir skipti um hendur. Í þessari ritgerð verður fjallað almennt um skuldajöfnuð, hvernig skuldajöfnuður kemur til, eðli aðgerðarinnar og röksemdir fyrir því af hverju heimilt er að skuldajafna. Til að hægt sé að krefjast skuldajafnaðar verða ákveðin skilyrði að vera fyrir hendi. Kröfurnar þurfa að vera gagnkvæmar, sambærilegar og hæfar til að mætast hvað greiðslutíma varðar. Gagnkrafan þarf að vera gild og hún þarf að meginstefnu að vera skýr og ótvíræð. Skilyrðið um gagnkvæmni krafna verður þó að teljast þýðingamest og verður lögð sérstök áhersla á meginregluna um að aðalkrafa og gagnkrafa þurfa að vera gagnkvæmar. Skilyrðið er skoðað innan skipta og utan.
Gagnkröfuhafar og aðalkröfuhafar eru oft fleiri en einn og getur þá verið vafi um hvort gagnkvæmnisskilyrðinu sé fullnægt. Þegar svo ber við skiptir máli hvernig ábyrgðin skiptist á milli kröfuhafa, hvort þeir beri solidariska ábyrgð, hlutfallslega ábyrgð eða hvort um sé að ræða kröfu á hendur öðru hvoru hjóna. Skoðað er hvort að gagnkvæmnisskilyrðið sé uppfyllt í tilvikum hins opinbera og fyrirtækjasamstæðna. Álitamál er hvort hægt sé að skuldajafna á milli þriðja manns og fyrirtækjasamstæðu og hvort að hið opinbera og borgararnir geti skuldajafnað sín á milli.
Reglur um hvenær megi skuldajafna við þrotabú byggjast að meginstefnu á ólögfestum reglum sem gilda um almennan skuldajöfnuð. Fjallað verður um þær sérreglur er gilda um skuldajöfnuð við gjaldþrotaskipti á grundvelli 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., hér eftir skammstöfuð gþl., og hvort að kröfur þurfi að vera gagnkvæmar við skuldajöfnuð. Við gjaldþrot er sá sem á kröfu á þrotabú og jafnframt skuldar því heimilt að láta kröfurnar jafnast út með skuldajöfnuði. Með skuldajöfnuði við gjaldþrotaskipti getur kröfuhafi fengið fulla greiðslu, þótt aðrir kröfuhafar sem eiga kröfu í sama flokki, fái ekki nema hluta af kröfum sínum greiddar. Þannig njóta þeir kröfuhafar sem eiga skuldajafnaðarrétt við þrotabú tryggingaréttar sem felst í greiðslu með skuldajöfnuði sem aðrir kröfuhafar njóta almennt ekki. Í lokin er samningsbundinn skuldajöfnuður athugaður og reynt að svara þeirri spurningu hvort heimilt sé að semja sig frá gagnkvæmnisskilyrðinu við skuldajöfnuð við gjaldþrotaskipti.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Steinunn_ritgerd.pdf | 341.62 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |