Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/14412
Í þessari ritgerð er fjallað um skuldajöfnuð og hvernig kröfu verður lokið með skuldajöfnuði. Þá er fjallað um helstu skilyrði þess að heimilt sé að ljúka kröfu með skuldajöfnuði og hvaða takmarkanir geta verið á þeirri heimild. Skoðaðar eru sérstaklega þær reglur sem gilda um skuldajöfnuð við slit fjármálafyrirtækja. Eru þær reglur meðal annars byggðar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB. Er sú tilskipun og innleiðing hennar skoðuð og fjallað um hvernig orðalag tilskipunarinnar er annað en lagareglunnar sem henni var ætlað að innleiða.
Dómur Hæstaréttar nr. 723/2012 í kærumáli Commerzbank AB gegn Kaupþingi, þar sem deilt er um heimild til skuldajafnaðar, er skoðaður sérstaklega. Fjallað er um niðurstöðu Hæstaréttar í málinu og forsendur dómsins skoðaðar með tilliti til gildandi réttar.
Ritgerðin er þannig uppbyggð að í öðrum kafla er fjallað á almennan hátt um skuldajöfnuð, skilyrði skuldajafnaðar, takmarkanir hans og hvaða aðstæður veita víðtækari rétt til skuldajafnaðar. Í þriðja kafla er fjallað um þær reglur sem gilda um skuldajöfnuð við slit fjármálafyrirtækja og áhrif innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja. Í fjórða kafla er fyrrnefndur dómur Hæstaréttar reifaður ásamt niðurstöðunni og fjallað um hvað megi lesa úr niðurstöðu dómsins um gildandi rétt.