Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14414
Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er kveðið á um ýmis réttindi til handa svonefndum aðila máls. Lögin innihalda ekki neina skilgreiningu á hugtakinu svo að þau verður að túlka út frá lögskýringargögnum.
Í ljósi þess hversu mikilvæg réttindi stjórnsýslulög veita aðila máls verða opinberar stofnanir að geta leyst úr hverjir teljist til aðila hverju sinni. Ein slíkra stofnana er Neytendastofa sem starfar samkvæmt lögum nr. 62/2005 um Neytendastofu og talsmann neytenda. Í þessari ritgerð verður fjallað sérstaklega um aðild að stjórnsýslumálum á neytendaréttarsviði Neytendastofu og fyrir áfrýjunarnefnd neytendamála. Ástæðan fyrir þessari afmörkun milli sviða Neytendastofu er að neytendaréttarsvið er það svið stofnunarinnar þar sem helst koma upp álitaefni um hverjir eigi aðild að málum. Það fer með eftirlit með öllum þeim lögum, sem lög nr. 62/2005 mæla fyrir um að stofnunin hafi eftirlit með, fyrir utan lög um öryggi vöru. Raunar er það svo að í skrifum íslenskra fræðimanna um Neytendastofu hefur að mestu verið fjallað um neytendaréttarsvið stofnunarinnar án þess að þess sé sérstaklega getið. Til að koma í veg fyrir allan misskilning þótti hyggilegast að afmarka umfjöllunarefnið með þessum hætti.
Ýmis álitaefni um aðild hafa vaknað tengd ákvörðunum neytendaréttarsviðs Neytendastofu og úrskurðum áfrýjunarnefndar neytendamála. Þar hefur mest reynt á hvort sá, sem sendir kvörtun eða ábendingu til Neytendastofu, telst vera aðili þess stjórnsýslumáls sem hefst í framhaldinu.
Í ritgerðinni verður fjallað almennt um aðildarhugtak stjórnsýsluréttar, til hvaða sjónarmiða er litið við að afmarka hver telst aðili tiltekins máls og hvaða réttaráhrif það hefur í för með sér að teljast aðili. Fjallað verður um Neytendastofu og hlutverk hennar, samkvæmt lögum nr. 62/2005 um Neytendastofu og talsmann neytenda, með áherslu á neytendaréttarsvið. Sérstaklega verður fjallað um þau tilvik sem Neytendastofa hefur eftirlit með, samkvæmt lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Einnig verður farið almennt yfir málsmeðferð stofnunarinnar og valdheimildir, samkvæmt lögum nr. 57/2005. Að síðustu verður fjallað um hvernig Neytendastofa hefur leyst úr álitamálum um aðild hjá neytendaréttarsviði Neytendastofu og fyrir áfrýjunarnefnd neytendamála. Áhersla verður lögð á að leiða í ljós hvort sá, sem sendir inn kvörtun, telst aðili máls í kjölfarið og hvort framkvæmdin samræmist almennum sjónarmiðum stjórnsýsluréttar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Aðild að stjórnsýslumálum hjá Neytendastofu og áfrýjunarnefnd neytendamála.pdf | 296,33 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |