is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/1449

Titill: 
 • Góður lestur er vandlærð list : rannsókn á farsælum kennurum í lestri í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Ritgerðin er lögð fram til fullnustu M. Ed.-gráðu við Kennaraháskóla Íslands. Um er að ræða 25 eininga verkefni.
  Markmiðið með rannsókninni var að skoða lestrarkennsluaðferðir hjá átta kennurum sem kenndu 2. bekk við grunnskóla í Reykjavík og voru taldir farsælir í sinni lestrarkennslu, kanna með viðtölum og vettvangsathugunum hvernig kennslunni var háttað hjá þessum kennurum og hvað mótaði ákvarðanir viðkomandi kennara á því hvaða aðferðum þeir beittu. Enn fremur var greint hvað þessir íslensku kennarar áttu sameiginlegt með erlendum kennurum, aðallega í Bandaríkjunum, sem hafa þótt skila góðum árangri í kennslu lestrar á yngsta stigi grunnskólans. Með því að skoða árangur nemenda þessara kennara á lesskimunarprófi að vori 2004 var kannað hvernig þeir stóðu sig í lestri samanborið við aðra nemendur í skólum sínum og var árangur þeirra borinn saman við árangur alls árgangsins í Reykjavík það ár.
  Helstu niðurstöður eru þær að þeir kennarar sem rannsóknin náði til falla um margt undir þær erlendu lýsingar sem til eru á farsælum kennurum í kennslu byrjenda í lestri. Þeim er mjög umhugað um að veita öllum nemendum góða kennslu, sérstaklega þeim sem þurfa sérstaka aðstoð við lestrarnámið. Kennararnir segjast miða kennsluna við hæfi hvers og eins og að nemendur fari á sínum hraða í gegnum lestrarnámið. Kennararnir reyna eftir föngum að gera námsumhverfið lestrarhvetjandi þó svo að sumir leggi meira á sig í þeim efnum en aðrir. Kennararnir leggja áherslu á þjálfunarþáttinn í 2. bekk og að börnin lesi mikið. Lesefni barnanna er þó mismunandi fjölbreytt fyrir utan hefðbundnar lestrarbækur. Íslenskir kennarar eiga það sammerkt með erlendum starfsbræðrum sínum að leggja mikla áherslu á samstarf við foreldra um lestrarnámið.
  Það sem greinir íslenska farsæla kennara í lestri frá þeim erlendu er að þeir virðast ekki leggja eins mikla áherslu á að gera lestrarnámið áhugavert og erlendir kennarar. Helmingur kennaranna sagðist í viðtölunum leggja mikla áherslu á jákvætt viðhorf nemenda gagnvart lestrarnáminu. Þeir nota ekki eins mikið forspá og að benda nemendum á að sjá hlutina fyrir sér þegar þeir lesa og erlendir kennarar gera. Þeir nota minna hópaskiptingar í lestrarkennslunni sjálfri heldur miða hana frekar við einstaka nemendur og þarfir þeirra. Íslenskir kennarar virðast sækja minna í símenntun varðandi lestrarkennslu en erlendir kennarar og leggja minni áherslu á lesskilning á þessu stigi lestrarnáms en erlendir starfsbræður.
  Allir kennararnir beittu einhvers konar blöndu af eindar- og heildaraðferðum í kennslunni en flestir lögðu þó mesta áherslu á hljóðaaðferð í upphafi lestrarnámsins.
  Nemendur þeirra kennara sem rannsóknin náði til náðu almennt mjög góðum árangri í lesskimuninni Læsi vorið 2004 miðað við jafnaldra í borginni allri. Nemendur fimm af átta kennurum voru með árangur sem var yfir meðaltalsárangri allra nemenda í 2. bekk þetta ár. Þar af voru tveir kennarar í rannsókninni með hæsta og næsthæsta meðaltal allra hópa úr lesskimuninni það ár. Í þremur af þeim bekkjum sem fylgst var með náðu nemendur ekki meðaltalsviðmiði um að geta lesið sér til gagns og voru undir meðaltalsárangri í borginni. Hafa ber í huga að nemendahóparnir eru ólíkir að samsetningu og fáir einstaklingar geta haft veruleg áhrif á meðaltalstölur.

Samþykkt: 
 • 9.1.2008
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/1449


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerd_nov07.pdf667.43 kBOpinnGóður lestur er vandlærð list - heildPDFSkoða/Opna