Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14565
Candida er tækifærissýkill og veldur almennt ekki sýkingum í munnholi. Ef að röskun verður hinsvegar á jafnvægi örveruflóru í munni getur það leitt til ofvaxtar á sveppnum sem getur leitt til sýkingar. Sýkingar í munnholi af völdum Candida sveppa eru algengar hjá þeim sem nota gervitennur, auk þess sem aðrir þættir hafa áhrif á það hversu móttækilegur einstaklingur er fyrir sýkingu. Þær meðferðir sem í boði eru gegn Candidasýkingum í munnholi eru ekki fullnægjandi og duga ekki til að bæta lífsgæði einstaklinga. Ónæmi gegn sýklalyfjum sem notuð eru gegn Candida er einnig vaxandi vandamál og því er þörf á að þróa nýjar aðferðir og lyf sem eru efnafræðilega ólík þeim sem eru í boði og þar með ólíklegri að leiði til ónæmis.
Fituefni hafa sýnt mikla og breiða virkni gegn sveppum, þar á meðal Candida sveppafjölskyldunni. Mónókaprín, 1-mónóglýseríð af kaprínsýru hefur mikið verið rannsakað vegna örverudrepandi eiginleika þess og hafa flestar rannsóknir sýnt fram á að það hafi mestu sveppadrepandi eiginleikana samanborið við önnur fituefni sem rannsökuð hafa verið. Rannsóknir á mónókapríni hafa einnig sýnt að það veldur ekki ertingu á slímhúð og hentar vel sem virkt efni í vatnssæknu hlaupi.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna sveppadrepandi virkni mónókapríns í vatnssæknu hlaupi við Candidasýkingum undir gervitönnum. Mónókapríni var komið fyrir í vatnssæknu hlaupi og voru einstaklingar sem nota gervitennur fengnir til að prófa hlaupið í fjórar vikur. Niðurstöður voru bornar saman við viðmiðunarhóp sem fékk hlaup án mónókapríns. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að Candida sveppir eru vandamál í munnholi hjá þeim sem nota gervitennur. Erfitt er að draga ályktun um raunverulega virkni mónókapríns í vatnssæknu hlaupi út frá gögnum rannsóknarinnar en vísbendingar eru um að mónókaprín dragi úr fjölda sveppa í munnholi einstaklinga með gervitennur, en frekari rannsókna er þörf.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistaraverk_Helga_.pdf | 2.4 MB | Lokaður til...01.04.2133 | Heildartexti |