is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14602

Titill: 
  • Lífhimnur pneumókokka. Þróun mæliaðferðar
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
  • Pneumókokkar (Streptococcus pneumoniae) eru mikilvægir sýkingavaldar í mönnum um allan heim, þó sérstaklega í börnum undir fimm ára aldri og eldra fólki. Þeir eru algeng orsök sýkinga í efri öndunarvegum sem geta leitt til þrálátrar miðeyrnabólgu, lungnabólgu, heilahimnubólgu, blóðsýkingar o.fl. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO: World Health Organization) látast árlega allt að ein milljón barna undir fimm ára aldri úr pneumókokkasýkingum í heiminum. Beratíðni pneumókokka er langhæst meðal barna en oft er talað um að nefkok barna sé vistfræðileg uppspretta pneumókokkasýkinga.
    Dreifing hjúpgerða er mjög breytileg eftir aldri, kyni, tíma og landsvæðum. Algengustu sýklalyfjaónæmu hjúpgerðirnar í öllum heiminum eru hjúpgerðir 6B, 9V, 19F, 14, 23F, 6A og 19A en á árunum 2005-2007 var algengasta hjúpgerðin sem greindist hér á landi í öllum sýnum hjúpgerð 19F.
    Lífhimnumyndun er einfalt ferli sem bakteríur nota til að lifa af, en lífhimnan veitir þeim mjög stöðugt og verndandi umhverfi. Lífhimnan veitir þannig bakteríum sem hana mynda skjól og auðveldar mjög dreifingu á miklu magni af bakteríum. Bakteríur í lífhimnum eru vel varðar og torveldar hún sýklalyfjum aðgang auk þess að þær eru tiltölulega óvirkar þar. Það gerir það að verkum að sýklalyf sem beinast gegn bakteríum í skiptingu virka verr en ella og þ.a.l. verður erfitt að ráða niðurlögum sýkingarinnar.
    Markmið þessarar rannsóknar var að setja upp aðferð til að mæla lífhimnumundun hjá pneumókokkum en sú aðferð hefur ekki verið sett upp hér á landi svo vitað sé. Áður en aðferðin sem notuð var var endanlega valin voru ýmsar breytur sem geta haft áhrif prófaðar nánar, þ.e. mismunandi ræktunartími, loftskilyrði, þynningar, skolvökvi og tíðni skolana. Ennfremur var markmið rannsóknarinnar að gera forrannsókn á völdum stofnum úr nefkoki frá frískum börnum á leikskólaldri, miðeyra frá börnum á sama aldri með endurteknar miðeyrnabólgur og frá ífarandi sýkingum. Þetta var gert til að kanna hvort munur sé á hlutfalli lífhimnumyndandi stofna milli hópa, hvaða hjúpgerðir eru mest lífhimnumyndandi og hvort tengsl séu á milli lífhimnumyndunar og sýklalyfjaónæmis.
    Stofnar úr miðeyrnasýkingum (77 stofnar), ífarandi sýkingum (22 stofnar) og berasýnum (97 stofnar) frá 0-6 ára börnum voru ræktaðir upp í polystyren bökkum og lífhimnumyndun þeirra ljósmæld í ljósmæli (n=196).
    Þær hjúpgerðir sem voru mest lífhimnumyndandi voru hjúpgerðir 18C, 29, 38, 6A, 6B og 19A í þessari röð. Þess ber þó að geta að aðeins var einn stofn af hjúpgerðum 18C, 29 og 38 og því er marktækni mælinga á þeim afar lítil. Miðeyrnastofnar voru í flestum tilfellum lífhimnumyndandi en þeir mynduðu einhverjar lífhimnur í 71% tilfella. Berastofnar mynduðu einhverjar lífhimnur í 70% tilfella og ífarandi stofnar í 68% tilfella. Mögulega var hægt að sjá tengsl á milli lífhimnumyndunar og sýklalyfjaónæmis hjá hjúpgerð 19F.
    Rannsóknin sýndi að aðferðin gagnast vel við greiningu á lífhimnumyndun pneumókokka en þó þarf að reyna að staðla betur skolun og uppleysingu CV litaðra lífhimna til að gera aðferðina öruggari.

Samþykkt: 
  • 2.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14602


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerð. Lífhimnur pneumókokka-Þróun mæliaðferðar.kho.pdf3.32 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna