Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14627
Mikil umræða hefur verið um fangelsismál hér á landi undanfarin ár. Margar fréttir hafa fjallað um fangelsi sem eru yfirfull og listi dómþola sem bíða eftir að hefja afplánun lengist stöðugt. Þó að dómar hafi á síðustu árum þyngst hefur umræðan undanfarna áratugi að miklu leyti snúist um að draga úr notkun fangelsisvistunar og notast við mannúðlegri afplánunarúrræði. Afplánun í fangelsi er mjög íþyngjandi fyrir fanga og hefur verið sýnt fram að hún geti haft skaðleg áhrif á þá. Brot dómþola eru misjöfn en ekki öll þeirra krefjast þess að þeir séu teknir úr samfélaginu og lokaðir inni í fangelsi. Því er mikilvægt að finna önnur úrræði sem henta betur fyrir slíka brotamenn og nota fangelsin fyrir þá dómþola sem hafa brotið gróflega af sér eða eru taldir ófærir um að vera úti í samfélaginu. Auk þess hefur verið bent á þá röksemd að það sé samfélagslega hagkvæmt að draga úr notkun fangelsisvistunar og notast við önnur afplánunarúrræði í staðinn þar sem þau eru almennt ódýrari og skila dómþola betur settum út í samfélagið eftir að afplánun lýkur.
Ef draga á úr notkun fangelsa verða önnur afplánunarúrræði að koma í staðinn. Rafrænt eftirlit er eitt þeirra úrræða sem notað hefur verið í stað fangelsisvistar. Í þessari ritgerð verður fjallað um reglur og framkvæmd rafræns eftirlits hér á landi og farið í gegnun þau skilyrði sem dómþoli þarf að uppfylla til að eiga kost á að afplána undir rafrænu eftirliti og hvaða skilyrði hann þarf að hlíta á meðan eftirlitinu stendur. Einnig verður farið í það hvernig framkvæmdin er við rafrænt eftirlit í Svíþjóð, Danmörku og Noregi og stuðst við rannsóknir sem gerðar hafa verið á úrræðinu í þeim löndum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hermann Aðalgeirsson_ritgerð.pdf | 603,06 kB | Lokaður til...04.04.2055 | Heildartexti |