Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14638
Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að kanna hvert mat þátttakenda sé á ímynd endurskoðenda, ásamt því að kanna hver ímynd fagstéttarinnar er í samanburði við ímynd fagstéttanna: viðskiptafræðingar, hagfræðingar, verkfræðingar og lögmenn. Rannsóknin byggir á tveimur könnunum, annars vegar á meðal nema við Háskóla Íslands og hins vegar meðal almennings en kannanirnar voru framkvæmdar í febrúar 2013. Rannsóknin var fjórþætt og skiptist í eigindlegar og megindlegar rannsóknir. Í upphafi voru nokkrir einstaklingar fengnir til að svara hvað væri það fyrsta sem þeim dytti í hug þegar fagstéttirnar voru nefndar á nafn. Tekin voru viðtöl við talsmenn fagfélaganna og forkönnun var lögð fyrir við ákvörðun á endanlegum eiginleikum fyrir lokakönnun. Í lokakönnun voru lagðir fyrir spurningalistar sem höfðu að geyma opnar og lokaðar spurningar ásamt bakgrunnsbreytum. Helstu niðurstöður voru fengnar með notkun vörukorts (perceptual maps).
Í upphafi er farið yfir hvert hlutverk og skyldur endurskoðenda eru ásamt lögum, reglugerðum, siðareglum og stöðlum sem endurskoðendum ber að fara eftir. Hugtakinu ímynd eru gerð skil ásamt því að skoða ímynd fagstétta. Væntingagapið (expectation gap) er stórt vandamál hjá endurskoðendum, er hugtakið skilgreint ásamt því að skoða hvað það er sem veldur þessu væntingabili.
Niðurstöður gefa skýrt til kynna að verkfræðingar mælist með jákvæðustu ímynd fagstéttanna en lögmenn með neikvæðustu ímyndina. Hagfræðingar og viðskiptafræðingar mælast með svipaða ímynd og almenningur virðist ekki gera mikinn greinarmun á þeim fagstéttum. Endurskoðendur mælast næst eiginleikunum „skipulagðir“ og „formlegheit“. Athyglisvert er að endurskoðendur og viðskiptafræðingar hafa mjög ólíka ímynd í hugum almennings, en til þess að öðlast löggildingu til endurskoðunar er BS gráða í viðskiptafræði skilyrði og eru því allir endurskoðendur viðskiptafræðingar. Niðurstöður sýndu að ekki væri sýnilegur munur á svörum háskólanema og almennings
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Kristín Elfa LOKAEINTAK.pdf | 1.39 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |