Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14655
Á undanförnum árum hefur mikil vakning átt sér stað í reiðhjólamennsku á Íslandi. Reiðhjólaumferð á morgnana er orðin algeng sjón og sífellt fleiri nota reiðhjól sem samgöngutæki allt árið um kring. Hjólreiðar eru þannig orðnar hluti af lífsstíl hjá mörgum og eins eru margir farnir að keppa í greininni. Þessi viðsnúningur í hjólreiðamenningu landans vakti áhuga höfundar á því að skoða ímynd þeirra reiðhjólavörumerkja sem eru á markaðnum í dag. Markmið verkefnisins er því naflaskoðun á vörumerkjum og þeim þáttum sem tengjast þegar verið er að byggja upp vörumerki, koma því á framfæri og viðhalda áhuga viðskiptavina.
Eftir skoðun á framboði reiðhjólavörumerkja var ákveðið að skoða sex vörumerki, kanna markaðshlutdeild þeirra sem og ímynd. Einnig hverju reiðhjólaáhugamenn væru að leita eftir við val á reiðhjóli og hvað það væri sem skipti máli í þeim efnum. Vörumerkin sem urðu fyrir valinu voru CUBE, GIANT, MONGOOSE, SCOTT, SPECIALIZED og TREK. Útbúinn var spurningalisti og voru spurningarnar þess eðlis að setja átti upp vörukort til að sjá stöðu vörumerkjanna á markaðnum. Slóð inn á spurningalistann var sett á vefsíðu Fjallahjólaklúbbsins og einnig send á alla á póstlistanum hjá þeim með reglulegu fréttabréfi þeirra. Höfundur gerðist meðlimur í hóp á Facebook er kallast Reiðhjólabændur og var slóðin sett þar inn við góðar viðtökur. Einnig var slóðin send á háskólanemendur í þeirri von um að auka svarhlutfall sem heppnaðist ekki.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að TREK mældist með bestu ímyndina miðað við staðsetningu á vörukortinu þegar kemur að gæðum og góðri endingu. TREK var líka tengt við hinn almenna reiðhjólamann og gefur það vörumerkinu ákveðna breidd af viðskiptavinum. Einnig mældist TREK með mesta markaðshlutdeild af vörumerkjunum samkvæmt rannsókninni og SPECIALIZED þar á eftir. SPECIALIZED mældist þó með hæsta meðaltal þegar spurt var um hvaða vörumerki yrði fyrir valinu ef þátttakandi keypti sér reiðhjól í dag.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
inga_rut_jónsdóttir_BS.pdf | 933,46 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |