Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/14658
Umfjöllunarefni ritgerðarinnar eru mælingar á vísitölu neysluverðs og bjagar í þeim. Rannsóknir á bjögum í vísitölumælingum eru raktar og þá sérstaklega niðurstöður Boskin nefndarinnar frá árinu 1996. Skýrsla Boskin nefndarinnar er enn þann dag í dag ein frægasta rannsókn á bjögum í vísitölumælingum. Hún var þó ekki gallalaus og hefur sætt talsverðri gagnrýni, en ljóst er að hún hafði mikil áhrif og síðan hún kom út hafa aðferðir við vísitölumælingar breyst til hins betra.
Helstu bjagar í mælingum á neysluverðsvísitölum eru staðkvæmdarbjagi, kaupháttabjagi, gæðabreytingabjagi og nýjungabjagi. Farið er sérstaklega vel yfir staðkvæmdarbjagann og rekstrarhagfræðina sem býr að baki honum. Gerð er ítarleg grein fyrir aðferðum Hagstofu Íslands við mælingar á vísitölu neysluverðs og þeim aðferðum sem stofnunin notar til að draga úr bjaga. Vísitala neysluverðs á Íslandi er byggð á grunni sem er 3,25 ára gamall að meðaltali. Vísitalan er Lowe fastgrunnsvísitala. Ef ekkert væri gert til þess að leiðrétta fyrir staðkvæmdarbjaga mun þannig vísitala ofmeta verðhækkanir og vanmeta verðlækkanir, sem leiðir til ofmats á verðbólgu.
Rannsókn var gerð á efra stigs staðkvæmdarbjaga í neysluverðsvísitölunni á Íslandi. Vísitalan var endurreiknuð þannig að grunnurinn væri að meðaltali samtímamældur. Þannig ætti endurreiknaða vísitalan að vera því sem næst laus við staðkvæmdarbjaga á efra stigi.
Samanburður á birtu neysluverðsvísitölunni og þeirri endurreiknuðu, á árunum 1997-2009, leiddi í ljós að vísitala neysluverðs á Íslandi ofmetur ekki verðbólgu vegna staðkvæmdaráhrifa. Niðurstaða rannsóknarinnar er ekki í takt við fræðin, en það má skýra með því að Hagstofa leiðréttir fyrir staðkvæmdarbjaga með ýmsum aðferðum. Aðferðir Hagstofu virðast því vera að skila árangri.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Andrea Sigurðardóttir - Mælingar á vísitölu neysluverðs.pdf | 1.02 MB | Open | Heildartexti | View/Open |