Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14722
Löggjöf á sviði sjávarútvegs hér á landi hefur einkennst af mikilli varúð gagnvart því að heimila erlendum aðilum að taka þátt í útgerð hérlendis og eignast þannig hlutdeild í þeirri atvinnugrein sem hefur verið meginuppistaða íslensks efnahagslífs í gegnum tíðina. Ástæður þess má rekja til baráttu Íslendinga fyrir fiskimiðum sínum umhverfis landið sem hófst í byrjun 14. aldar. Fram að þeim tíma höfðu erlendir aðilar stundað veiðar hér við land óáreittir sökum þess að Íslendingar höfðu ekki bolmagn til að nýta fiskimiðin sjálfir.
Ritgerð þessari er ætlað að varpa ljósi á þær reglur sem gilda að íslenskum rétti um heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri á sviði sjávarútvegs samkvæmt lögum nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, með síðari breytingum. Fyrst er vikið að þeim stjórnskipulega grundvelli löggjafans til þess að takmarka slíkan rétt erlendra aðila til fjárfestingar. Þar á eftir er litið til þeirrar sögulegrar þróunar sem leiddi til setningu laganna og gerð grein fyrir gildissviði laganna, markmiði þeirra og helstu ákvæðum. Einnig eru helstu hugtök skilgreind og fjallað er nánar um það fortakslausa bann við erlendri eignaraðild í sjávarútvegi sem boðað var með tilkomu laganna.
EES-samningurinn var staðfestur af íslenskum stjórnvöldum og veitt lagagildi með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Nauðsynlegt er að líta til regluverks Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins til að gera efninu greinargóð skil en þar er helst litið til reglna um staðfesturétt og frjálsra fjármagnsflutninga, auk þess sem fjallað er um sérstakar undanþágur sem Ísland fékk frá EES-samningum á sviði sjávarútvegs.
Fjallað er um þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila, sbr. lög nr. 46/1996, og rakin þau sjónarmið er leiddu til þess að óbein erlend fjárfesting var heimiluð í sjávarútvegi hér á landi. Fjallað er um skilin á milli frumvinnslu sjávarafurða og frekari vinnslu þeirra sem og skoðað hvort 4. gr. laga nr. 34/1991, sbr. lög nr. 46/1996, geti sett fjárfestingu erlendra aðila skorður í atvinnugreinum alls óskyldum sjávarútvegi. Þá er einnig vikið að eftirliti með brotum á fyrrgreindum lögum og farið yfir tæk úrræði vegna slíkra brota. Í framhaldi af því er litið til heimildar erlendra aðila til að öðlast eignarréttindi yfir fasteign hér á landi, en þar njóta erlendir aðilar innan EES nokkrar sérstöðu umfram aðra.
Í lokin er vikið að þeirri spurningu hvort heimila eigi beina eignaraðild erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Markmið þeirrar umfjöllunar að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið um kosti og galla beinnar fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi og færa rök fyrir því hvort heimila eigi slíka fjárfestingu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Takmarkanir á erlendu eignarhaldi í sjávarútvegi.pdf | 880,31 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |