is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14741

Titill: 
 • Heimildir til verðtryggingar að íslenskum rétti. Úrlausnir dómstóla um gengistryggingu lánsfjár
 • Titill er á ensku Indexation in Icelandic law. Case law on foreign currency indexed loans
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Á síðustu árum hefur mikið verið rætt og ritað um lögmæti gengistryggðra lána. Veiting slíkra lána varð algeng hér á landi upp úr síðustu aldarmótum og var gengistrygging þeirra ýmist miðuð við eina tiltekna erlenda mynt eða við reiknieiningu þar sem tilteknar myntir vógu mismikið. Í kjölfar bankahrunsins svonefnda sem varð hér á landi í október 2008, féll gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum. Við gengisfallið hækkaði höfuðstóll gengistryggðra lána í mörgum tilvikum verulega. Eftir þessar miklu hækkanir var lögmæti slíkra lána dregið í efa.
  Gengistrygging er ein tegund verðtryggingar. Reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár er nú að finna í VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Skorður við frelsi manna til að semja um verðtryggingu fjárskuldbindinga hafa þó lengi verið í gildi hér á landi og rekja má forsögu núgildandi reglna um verðtryggingu í lögum nr. 38/2001 aftur til laga nr. 4/1960 um efnahagsmál, en í 6. gr. þeirra laga var lagt almennt bann við gengistryggingu. Að meginstefnu hefur slíkt bann verið í gildi hér á landi allar götur síðan með einu eða öðru móti.
  Sú umfjöllun sem hefur farið fram undanfarin ár um gengistryggð lán hefur hverju sinni almennt verið einangruð við afmörkuð álitaefni tengd slíkum lánum. Að sama skapi hefur umfjöllun um dóma Hæstaréttar, sem varða gengistryggð lán, almennt verið takmörkuð við fáa dóma hverju sinni og afmörkuð álitaefni þeim tengdum. Markmið ritgerðarinnar er því tvíþætt. Annars vegar að fjalla með heildstæðum hætti um þær reglur sem gilda um verðtryggingu fjárskuldbindinga að íslenskum rétti og forsögu þeirra. Hins vegar að fjalla með heildstæðum hætti um úrlausnir dómstóla sem varða gengistryggingu lánsfjár og draga ályktanir af þeim um inntak gildandi réttar.
  Samningsgerð og lögskipti einstaklinga og lögaðila þar sem reynir á verðtryggingu og lögmæti hennar eftir atvikum hvíla á grundvelli meginreglna á sviði fjármunaréttar, einkum samninga- og kröfuréttar, og á margar þeirra hefur reynt í dómsmálum, þar sem tekist hefur verið á um lögmæti gengistryggingar gagnvart lögum nr. 38/2001. Af þessum sökum verður í upphafi, í kafla 2, dregin upp mynd af þeim grundvallarreglum samninga- og kröfuréttar sem reynt hefur á í því samhengi.
  Við skýringu á núgildandi lagaákvæðum um verðtryggingu geta eldri ákvæði um sama efni ráðið miklu um hvaða merkingu ber að ljá hinum yngri. Í samræmi við þetta hefur Hæstiréttur litið til lögskýringargagna með eldri lögum sem fjalla um verðtryggingu við skýringu á yngri lögum um sama efni. Í kafla 3 verður gerð grein fyrir þróun þeirra reglna sem gilt hafa um verðtryggingu hér á landi.
  Frá því fyrst reyndi á lögmæti gengistryggingar gagnvart lögum nr. 38/2001 með Hrd. 16. júní 2010 (92/2010) og Hrd. 16. júní 2010 (153/2010) hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í dómunum var því slegið föstu að verðtrygging, sem miðar skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, sé ólögmæt. Við þessa niðurstöðu Hæstaréttar vöknuðu margar spurningar, m.a. um fordæmisgildi dómanna og hvernig bæri að haga endurreikningi lána í íslenskum krónum sem voru bundin ólögmætu ákvæði um gengistryggingu. Eftir því sem fleiri mál hafa ratað til Hæstaréttar hefur hægt og bítandi verið leyst úr þeim álitaefnum sem hafa vaknað í tengslum við slík lán. Í kafla 4 verður dregin upp heildarmynd af þeim dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á lögmæti lána gagnvart VI. kafla laga nr. 38/2001. Í kafla 5 verður leitast við að greina dómaframkvæmd Hæstaréttar á þessu sviði og draga af henni almennar ályktanir um inntak gildandi réttar. Í kafla 6 verður efni ritgerðarinnar dregið saman.

Samþykkt: 
 • 3.5.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/14741


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Haskolaprent - ritgerd - JPH.pdf600.87 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna