is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14795

Titill: 
 • Háþrýstingur meðal íslenskra barna. Orsakir, marklíffæraskemmdir og aðferðir við mælingu blóðþrýstings
 • Titill er á ensku Hypertension in Icelandic children. Aetiology, target organ damage and methods for blood pressure measurement
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Inngangur: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna orsakir háþrýstings og tíðni marklíffæraskemmda hjá lýðgrunduðu þýði og hjá tilvísunarþýði íslenskra barna með háþrýsting. Annað markmið var að meta mun á blóðþrýstingsmælingum með sjálfvirkum mæli og handvirkum skífublóðþrýstingsmæli.
  Efni og aðferðir: Með þversniðsnálgun voru rannsökuð 30 börn, 9-10 ára, sem greindust með háþrýsting við skimun í lýðgrunduðu þýði árið 2009. Gerðar voru blóð- og þvagrannsóknir til að kanna orsakir háþrýstings og merki um marklíffæraskemmdir. Öll börnin gengust undir mælingu á sólarhringsblóðþrýstingi og ómskoðun á hjarta, hálsslagæðum og nýrum. Viðmiðahópur 30 barna sem voru pöruð eftir kyni, hæð og þyngd gekkst undir ómskoðun á hjarta og hálsslagæðum. Einnig var gerð afturskyggn rannsókn á börnum undir 18 ára aldri, sem greinst höfðu með háþrýsting á göngudeild nýrnalækninga á Barnaspítala Hringsins á árunum 2003-2008. Sjúkraskrár voru yfirfarnar og leitað að orsökum háþrýstings, breytingum á vinstri slegli af völdum háþrýstings og smáalbúmínmigu. Við samanburð á sjálfvirkum mæli og handvirkum skífublóðþrýstingsmæli voru notaðar blóðþrýstingsmælingar 979 einstaklinga úr lýðgrunduðu þýði 9-10 ára barna. Blóðþrýstingur var mældur tvisvar hjá hverju barni með handvirka mælinum og tvisvar með þeim sjálfvirka. Börnunum var skipt í hóp S sem var fyrst mældur með sjálfvirka mælinum og síðan með þeim handvirka og hóp H þar sem fyrstu tvær mælingarnar voru gerðar með handvirka mælinum.
  Niðurstöður: Í lýðgrundaða þýðinu var viðvarandi háþrýstingur staðfestur með mælingu á sólarhringsblóðþrýstingi hjá 24 börnum. Frumkominn háþrýstingur var greindur hjá 22 börnum en 2 börn tóku lyf sem gætu hafa hækkað blóðþrýsting þeirra. Meðal tilvísunarþýðisins fundust 93 börn sem greind höfðu verið með háþrýsting. Af þeim höfðu 26 (28%) frumkominn háþrýsting, 62 (67%) afleiddan háþrýsting og 5 (5%) læknastofuháþrýsting. Algengustu orsakir hárþrýstings voru nýrnasjúkdómar og meðfæddir gallar í nýrum og þvagvegum (47%). Í lýðgrundaða þýðinu greindist aukinn massi vinstri slegils (MVS) hjá 6 börnum með háþrýsting og einu viðmiði (p=0,041), 2 höfðu einungis smáalbúmínmigu og 1 barn hafði hvort tveggja. Í tilvísunarþýðinu sást þykknun á vinstri slegli hjá 11 (12%) börnum og skert útstreymisbrot eða víkkun vinstri slegils hjá 2 (2%), 4 börn greindust með smáalbúmínmigu og þar af voru 2 börn einnig með þykknun á vinstri slegli. Alls voru því 8 börn (27%) í lýðgrundaða þýðinu og 15 börn (16%) í tilvísunarþýðinu með marklíffæraskemmdir af völdum háþrýstings. Í samanburði á sjálfvirkum blóðþrýstingsmæli og handvirkum skífublóðþrýstingsmæli var ekki marktækur munur á meðaltali slagbilsblóðþrýstings, sem var 111,5 ± 9 mm Hg samanborið við 111,3 ± 8 mm Hg (p=0,39). Hlébilsblóðþrýstingurinn var að meðaltali lægri með sjálfvirka mælinum, 61,5 ± 7 mm Hg samanborið við 64,6 ± 7 mm Hg (p<0,001). Meðalmunurinn á slagbils- og hlébilsþrýstingi var 0,18 mm Hg (bil, -21 til 21 mm Hg) og 3,13 mm Hg (bil, -33 til 35 mm Hg). Meðalslagbilsþrýstingurinn var hækkaður hjá 15,9% barna með sjálfvirka mælinum og 14,1% með handvirka skífumælinum en helmingurinn af þeim sem voru með hækkaðan blóðþrýsting með annarri aðferðinni voru með eðlilegan blóðþrýsting með hinni aðferðinni (kappa tölfræði, 0,39).
  Ályktanir: Frumkominn háþrýstingur er algengasta orsök háþrýstings í lýðgrunduðu þýði en meirihluti tilvísunarþýðis hafði afleiddan háþrýsting. Heildartíðni marklíffæraskemmda var þó hærri í lýðgrunduðu rannsókninni sem skýrist ef til vill af nákvæmari leit að slíkum skemmdum. Enginn munur var á meðaltali slagbilsþrýstings með sjálfvirku og handvirku blóðþrýstingsmælunum en hlébilsþrýstingur var lægri með sjálfvirka mælinum. Takmarkað samræmi var á milli mælanna við greiningu hækkaðs blóðþrýstings.

Samþykkt: 
 • 6.5.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/14795


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerd_Sigridur.Eliasdottir.pdf1.54 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna