is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14796

Titill: 
 • Um góða trú í skilningi 10. gr. MSE og 73. gr. stjskr. og skyldur blaða- og fréttamanna
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Ákvæði laga nr. 38/2011 um fjölmiðla voru mikil réttarbót, en þau setja ekki heildstæðar leikreglur fyrir fjölmiðla og blaða- og fréttamenn og þar eru ekki tæmandi taldar þær réttarheimildir sem gilda um störf þeirra. Ákvæðin sem skipta máli eru víða í annarri löggjöf.
  Þróun undanfarinna ára og sérstaklega ný dómaframkvæmd hefur kallað á samantekt um lagalega ábyrgð- og skyldur blaða- og fréttamanna. Í þessari meistararitgerð í lögfræði er leitast við að greina ábyrgð og skyldur þeirra með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands í málum vegna tjáningarfrelsisákvæðis 73. gr. stjórnarskrár annars vegar og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) vegna 10. gr. Mannréttindasáttmálans hins vegar í málum um ábyrgð og skyldur blaða- og fréttamanna.
  Ritgerðin er á sviði fjölmiðlaréttar sem er sú fræðigrein lögfræðinnar sem fjallar um réttarumhverfi fjölmiðlanna. Þetta réttarsvið er um margt sundurleitt og skarast við ýmsar aðrar greinar lögfræðinnar. Vegna ríkra tengsla við aðrar fræðigreinar eins og stjórnskipunarrétt, refsirétt og persónurétt, á viðfangsefni ritgerðarinnar sterka snertifleti við þessar fræðigreinar.
  Hvað er góð trú (e. good faith) og hvaða lagalegu þýðingu hefur hún fyrir störf blaða- og fréttamanna? Hvenær geta blaðamenn talist í góðri trú þegar þeir birta fréttir sem geta flokkast sem ærumeiðandi? Leitast er við að svara þessum spurningum á fræðilegan hátt með það fyrir augum að lýsa gildandi rétti á þessu sviði. Farið er ítarlega yfir merkingu hugtaksins og þýðingu þess í lögfræði. Þá er farið yfir samspil góðrar trúar og reglunnar um exceptio veritatis (vítaleysi sannra ummæla), muninn á gildisdómum og staðhæfingum um staðreyndir og þær lagalegu skyldur sem blaða- og fréttamenn bera gagnvart þeim sem fjallað er um í fréttum. Fjallað er um hvaða kröfur megi gera til blaða- og fréttamanna um að sannreyna gögn og orð viðmælanda og álitaefni sem tengjast nafnlausum heimildum. Fjallað er um álitaefni tengd sönnun og þá aðferðafræði sem Hæstiréttur Íslands og MDE beita varðandi sönnunarkröfur í ærumeiðingarmálum gegn blaða- og fréttamönnum og þá sérstaklega regluna um að ærumeiðandi ummæli í frétt séu ósönn þangað til annað sannast (e. presumption of falsity), en oft hefur verið byggt á ósanngirni þessarar reglu fyrir MDE og málsástæðum á slíkum grunni alltaf hafnað.
  Reifaðir eru dómar Hæstaréttar og MDE þar sem fjallað er um samspil siðareglna við lagalega ábyrgð blaðamanna, m.a nýlegir dómar þar sem íslenska ríkið var talið hafa brotið gegn 10. gr. sáttmálans með sakfellingu yfir blaðamönnum sem voru taldir hafa verið í góðri trú.
  Í ritgerðinni er jafnframt kafli sem helgaður er sérstökum álitaefnum um friðhelgi einkalífsins og skyldum blaðamanna, en þar er farið yfir aðstæður og tilvik þar sem tjáningarfrelsi blaðamanna skarast við rétt einstaklings til friðhelgis einkalífs, sem nýtur verndar 71. gr. stjskr. og 8. gr. Mannréttindasáttmálans. Fjallað er ítarlega um lögbundnar takmarkanir og hvar markarlínur liggja í umfjöllun fjölmiðla um einkamálefni einstaklinga og þá aðferðafræði sem MDE og Hæstiréttur beita þegar þessi réttindi sem standa jafnfætis skarast. Loks er umfjöllun um það undir hvaða kringumstæðum fjölmiðlum er heimilt að birta myndir og nöfn einstaklinga og þær sérstöku reglur sem gilda um svokallaðar almannapersónur í þeim efnum.

Samþykkt: 
 • 6.5.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/14796


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Um goda tru mag jur ritgerd thorbjorn thordarson final.pdf1.31 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna

Athugsemd: Reglur um aðgang koma fram á sérstöku eyðublaði sem skilað er samhliða rafrænum skilum. Meginreglan er opinn aðgangur eftir 1. september 2014 (2013 á blaðinu, aths. umsjónarmanns). Heimilt er að vísa í efni ritgerðarinnar án sérstaks leyfis höfundar, en geta þarf heimildar.