Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14807
Markmið þessarar ritgerðar er að skoða stjórnmálaumfjöllun fjölmiðla á Íslandi í dag, hvaða umfjöllunarefni eru oftast á dagskrá og hverjir það eru úr heimi stjórnmálanna sem birtast í fjölmiðlum. Umfjöllun fyrir alþingiskosningarnar 2013 er notuð sem dæmi í þessu samhengi. Til þess að komast að niðurstöðu og skilja betur samband stjórnmála og fjölmiðla verður fjallað um dagskrárvald og innrömmunaráhrif fjölmiðla við framsetningu frétta og þau áhrif sem fréttaumfjöllun getur mögulega haft á samfélagið. Kenningin um fjölmiðla sem fjórða valdið verður einnig skoðuð með það fyrir augum að útskýra þau völd sem fjölmiðlar hafa og þær skyldur sem þeir bera. Næst er litið yfir sögu stjórnmála og fjölmiðla á Íslandi og þær rannsóknir sem gerðar hafa verið af íslenskum fræðimönnum. Að lokum verður farið yfir framkvæmd og niðurstöður rannsóknar sem gerð var á fréttum sem birtust í dagblöðum og kvöldfréttum sjónvarps vikuna 17.-23. mars 2013. Eigindleg innihaldsgreining leiddi í ljós að efnahagsmál eru þau mál sem fjölmiðlar gerðu oftast að umfjöllunarefni sínu í þessari viku, rúmum mánuði fyrir kosningar. Næst á eftir komu umfjallanir um þinglok og utanríkismál. Formenn „fjórflokksins“ voru áberandi viðmælendur fjölmiðlanna á meðan formenn nýrra framboða og stjórnmálafla voru nær ósýnilegir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-hvaderadfretta-Skemman.pdf | 528.47 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |