is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14831

Titill: 
  • Stjórn- og réttarheimspekilegar röksemdir tjáningarfrelsis: Og takmarkanir tjáningarfrelsis með vísan til siðgæðissjónarmiða
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Hvaða sérstaka gildi hefur tjáningarfrelsið fyrir gangverk lýðræðisríkja, þannig að öll vestræn ríki vernda það sérstaklega í stjórnarskrám sínum? Hvaða grundvallarrök búa að baki því að við veitum tjáningarfrelsinu jafn viðamikla vernd og raun ber vitni? Þótt margt hafi verið ritað í íslenskum fræðigreinum og ritum sem kann að hafa snertiflöt við spurningarnar að ofan er staðreyndin engu að síður sú að lítil umræða hefur átt sér stað um stjórn- og réttarheimspekilegar forsendur fyrir tjáningarfrelsisvernd í íslenskri löggjöf. Að sama skapi hefur aðeins að litlu leyti verið rannsakað með hvaða hætti löggjafinn og dómstólar hafa túlkað, lögfest og beitt ákvæðum sem tæpa á tjáningarfrelsi með tilliti til þeirra kenninga sem lagðar hafa verið til grundvallar. Í ritgerð þessari er ætlunin að greina frá meginþróunardráttum í tjáningarfrelsisvernd vestrænna ríkja. Kannaður verður sá réttarheimspekilegi grundvöllur sem tjáningarfrelsisverndin byggir á. Gerður verður samanburður á ríkjandi hugmyndafræði og framkvæmd tjáningarfrelsisverndar í meginlandsrétti annarsvegar og í hinum engilsaxneska hins vegar. Í því tilliti verður sérstaklega horft til Bandaríkjanna sem hafa löngum haft forystu í viðamikilli vernd tjáningarfrelsis og til Þýskalands og Norðurlandaþjóðanna hins vegar í meginlandsrétti. Jafnframt verður sjónum beint að þjóðréttarlegum skuldbindingum Evrópuríkja í gegnum Mannréttindasáttmála Evrópu. Í kjölfarið verður nokkuð ítarleg umfjöllun um tjáningarfrelsisákvæði íslensku stjórnarskrárinnar og takmarkanir sem af því leiða. Ætlunin er að hægt sé að svara þeirri spurningu hvert inntak tjáningarfrelsisverndar í íslenskum rétti sé og hvaða grundvöllur búi að baki henni í meðförum löggjafans og dómstóla. Þótt jafn viðamikil umfjöllun kunni á köflum að verða yfirlitskennd er von mín sú að ritgerðinni takist að varpa ljósi á inntak verndarinnar hér á landi og þá hvort einhverja veikleika kunni að vera að finna á tjáningarfrelsisvernd hér á landi í samanburði við það sem tíðkast erlendis.
    Í síðari hluta ritgerðarinnar verður sérstaklega litið til takmarkana á tjáningarfrelsi með skírskotun til siðgæðissjónarmiða. Með umræðu um aukið inntak og vernd mannréttinda og sjónarmiðum í átt til aukins frelsis borgaranna í lýðræðisþjóðfélögum 21. aldar vaknar spurningin um hvort og þá að hversu miklu leyti eigi að vera heimilt að takmarka tjáningu sem virðist ekki eiga brýnt erindi í lýðræðisumræðu. Tjáningu sem kann að vera til þess fallin að valda hneykslan eða er illa séð af meirihluta þjóðfélagsins. Aftur verður gerður samanburður á meginlandsrétti og engilsaxneskum rétti í þessu tilliti og reynt að draga ályktanir um efnið í íslenskum rétti.

Samþykkt: 
  • 6.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14831


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Stjórn- og réttarheimspekilegar röksemdir tjáningarfrelsis.pdf715,97 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna