is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14840

Titill: 
 • Upphaf lútherskrar siðbótar í helgihaldi á Íslandi. Þýðing Gissurar Einarssonar á messu- og predikunarákvæðum kirkjuordinansíu Kristjáns 3.
 • Titill er á ensku The Beginnings of Lutheran Reformation in Icelandic Liturgy. Gissur Einarsson´s Translation of the regulations on mass and preaching in Christian III.´s Church Ordinance
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er sú þýðing Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuordinansíu Kristjáns 3., sem lögð var fyrir þingheim til samþykktar þann 28. júní árið 1541, og sér í lagi messu- og predikunarákvæði ordinansíunnar.
  Rannsóknarspurningar eru eftirfarandi:
  1) Hvort byggðist þýðing Gissurar á latneskri útgáfu ordinansíunnar frá 1537 (Ordinatio ecclesiastica regnorum Daniae & Norvegiae et Ducatuum Slesvicensis, Holsatiae, etc. etc.) eða á danskri útgáfu hennar frá 1539 (Den danske Kirkeordinans)?
  2) Hvaða breytingar, ef nokkrar, gerði Gissur á frumtextanum í meðförum og þá hvers vegna?
  Til skilnings á bakgrunni ordinansíunnar er í upphafi fjallað um siðbót Lúthers á meginlandinu og hér á Íslandi og þá einkum, sem fyrr er getið, þátt þýðanda ordinansíunnar, Gissurar Einarssonar, í atburðarásinni. Kastljósi er því næst beint að tilurð ordinansíunnar, höfundum, markmiðum og meginefni hennar. Þá eru rakin viðhorf Lúthers til helgihaldsins eins og þau birtast í helstu ritum hans um efnið á árunum 1520-1526. Siðbótarmanninum var messan hugleikin en vildi ekki stofna til „nýrrar“ guðsþjónustu heldur bæta það sem aflaga hafði farið guðfræðilega í messu Rómarkirkjunnar. Einnig er greint frá þætti Bugenhagens í þessari sögu.
  Í rannsókninni sjálfri eru tveir kaflar ordinansíunnar teknir sérstaklega fyrir, þ.e.a.s. þeir sem fjalla um opinbera messugjörð (Ritus celebrandi publicam missam) og predikun fagnaðarerindisins (Ritus praedicandi) og birtir eins og þeir koma fyrir í fjórum útgáfum kirkjuordinansíunnar, þ.e.:
  • Latneska útgáfan frá 1537 (Ordinatio Ecclesiastica).
  • Dönsk þýðing ordinansíunnar, prentuð 1539 undir heitinu Den danske Kirkeordinans.
  • Íslensk þýðing Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups (Kirkju-ordinanzía Kristjáns konungs hins III.) sem lögfest var fyrir Skálholtsbiskupsdæmi á Þingvöllum árið 1541.
  • Yngri þýðing ordinansíunnar, íslensk, frá því um 1600. Þýðandinn er ókunnur en talið er að hún hafi verið gerð að frumkvæði Odds Einarssonar, Skálholtsbiskups 1589-1630.
  Auk þess er birt til samanburðar eigin þýðing höfundar á latneska textanum (Ordinatio Ecclesiastica), og var markmið hennar að birta eins orðrétta þýðingu og kostur væri.
  Í ritgerðinni er lögð fram sú niðurstaða á grundvelli textasamanburðarins að þýðing Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuordinansíunni hafi í reynd verið hans eigin útgáfa af ordinansíunni, að mestu byggð á Den danske Kirkeordinans, með Ordinatio Ecclesiastica mjög til hliðsjónar, en einnig hafi hún að geyma eigin staðfærslur og viðbætur Gissurar. Til samanburðar er yngri íslenska þýðingin frá um 1600 svo til orðrétt þýðing dönsku útgáfunnar.
  Þegar upp er staðið er þó óhætt að segja að þessar breytingar Gissurar hafi haft lítið að segja um merkingu í köflunum um guðsþjónustuna og predikunina, enda ljóst að áherslur Lúthers og samverkamanna hans hafa skilað sér til Íslands í gegnum ordinansíuna.

Samþykkt: 
 • 6.5.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/14840


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Þorgeir Arason - Upphaf lútherskrar siðbótar í helgihaldi á Íslandi.pdf1.05 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna

Athugsemd: Aths. höf.: Gæsalappir féllu niður í megintexta í pdf-skjali.