Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/14962
Ritgerð þessi fjallar um listakonuna og aðgerðasinnann Rósku og á hvaða hátt femínískar forsendur og áherslur koma fram í myndlistarverkum hennar. Markmiðið er að kanna hvort hægt sé að kalla Rósku femínískan myndlistarmann og hvort myndmál hennar geti kallast femínískt. Í ljósi þess markmiðs verður einnig skoðað hvernig skrifað var um listsköpun Rósku í dagblöðum og hvort karllæg orðræða á seinni hluta síðustu aldar kristallist í þeim skrifum og hvort hún sé andfemínísk.
Á mótunarskeiði Rósku þróast önnur bylgja femínisma og myndlistarheimurinn tekur miklum og hröðum breytingum upp úr miðri 20. öld. Á árunum frá 1960 til 1980 eiga sér stað miklar hræringar í myndlistar- og mannkynssögunni og kynjamál og kvenréttindi eru í brennidepli. Myndlistin þróast úr karllægum myndheimi karlkyns listamanna yfir í að konur fara að tjá sig á femínískan hátt samfara vaxandi kvenréttindabaráttu. Konan verður meira áberandi sem gerandi í myndlist í stað þess að vera viðfang eða músa karlkyns listamanna eins og tíðkaðist á öldum áður. Konur fara í auknum mæli að endurspegla sjálfa sig og sinn persónulega myndheim og nota líkama sinn á sínum eigin forsendum til að tjá sig í myndlist. Konan sem mótíf kvenna í myndlist verður sífellt meira áberandi í listum kvenna á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
Konan var Rósku alla tíð hugleikin sem viðfangsefni og hún málaði sjálfa sig og konur í málverkum sínum alla tíð. Á fyrri hluta ævi sinnar var Róska kona meðal karla í karllægu samfélagi myndlistar. Hún þorði að láta verkin tala og var afar bersögul og opinská. Samt sem áður var hún hikandi. Hún vóg salt á milli miðla á tímabili og týndi sjálfri sér um stund. Hún fór ekki varhluta af karllægri gagnrýni, og lifði sem kona í karllægum heimi og þurfti oft að standa fast á sínu og svara fyrir sig. Þegar leið á öldina breyttist afstaða Rósku og hún fór meðvitað að horfa á sig sem konu meðal kvenna. Hún fór í auknum mæli að tengja list sína við kvennabaráttu og kvenréttindi frekar en almenna mannréttindabaráttu. Myndlist hennar þróaðist samfara því yfir í enn heiðarlegri og berskjaldaðri list þar sem konan og hugmyndir Rósku um konur voru í brennidepli. Hér verður sérstæður myndheimur Rósku skoðaður út frá femínískum forsendum og hugmyndafræði og orðræðu í hennar samtíma og hún sett í samhengi við femínískar áherslur og sögu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hugvísindasvið BA Ritgerð ÁstríðurMagnúsdóttir-x.pdf | 10,89 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |