Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15038
Neyslumenning Kínverja skiptir miklu máli fyrir seljendur á neytendamarkaði í Kína. Einkaneysla er lítil í hlutfalli af landsframleiðslu og skýr áform og vilji stjórnvalda til að hækka það hlutfall.
Hagvexti hefur verið haldi uppi með framleiðsludrifnu hagkerfi, útflutningi og fjárfestingum í innviðum þjóðfélagsins. Minnkandi eftirspurn á heimsvísu gerir það að verkum að stjórnvöld þurfa að breyta efnahagslíkani sínu. Stjórnvöld leggja mikla áherslu á áframhaldandi borgvæðingu til að hækka meðallaun. Gangi áform stjórnvalda um breytt efnahagslíkan eftir má gera ráð fyrir að Kína verði stærsti neytendamarkaður í heimi innan fárra ára.
Kína er þegar stærsta framleiðsluríki heims og er stimpillinn Made in China þekktur um allan heim. Ritgerðin tekur á viðhorfi Kínverja til stimpilsins Made in China og hvaða áhrif það hefur á val þeirra á neytendamarkaði. Farið er yfir hvað mótar neytendahegðun almennt og sérstaklega fjallað um áhrif menningar á val og viðhorf einstaklinga. Sérstaða Kína í því samhengi er dregin fram.
Kína er lagskipt þjóðfélag og ólík neyslumenning endurspeglar skiptingu þjóðfélagsins efnalega og eftir búsetu. Lauslega er farið yfir mismunandi væntingar og þarfir ólíkra þjóðfélagshópa, en aðaláhersla lögð á að skoða kínverska nútímaneytandann. Í þjóðfélagi þar sem velgengni er drifkrafturinnn og miklu skiptir að öðlast virðingu samborganna, í sátt og samlyndi samfélagsins, verður val neytandans flókið samspil áhrifavalda. Kínversk stjórnvöld geta einnig með ýmsum aðgerðum haft mikil áhrif. Félagslegar úrbætur og traust neytenda á aðgerðum stjórnvalda munu skipta sköpum fyrir þróun á neytendamarkaði. Farið er yfir samkeppnisaðstæður innlendra og erlendra fyrirtækja á markaði í Kína og sýnt hvernig þær geta haft áhrif á val neytenda.
Kínversk framleiðslufyrirtæki standa frammi fyrir mikilli áskorun á næstu árum. Fyrir tilstilli fjölmargra áhrifavalda er vilji og innbyggt viðhorf í samfélaginu til stuðnings innlendum framleiðendum. Stjórnvöld og atvinnulífið þurfa að taka höndum saman til að efla nýsköpun og koma til móts við auknar kröfur neytenda. Þannig gæti stimpillinn Made in China orðið þekktur ekki bara fyrir umfang heldur líka gæði.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Made in China - Lina G Atladottir2013.pdf | 3,09 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |