is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15067

Titill: 
 • Samspil heimspeki og læknisfræði. Þekkingarfræði- og verufræðileg greining
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Greining á samspili heimspeki og læknisfræði er margþætt. Ég mun greina áhrif heimspekinnar á læknisfræðina frá upphafi. Þá greini ég kenningar heimspekinnar um sálina, Sjálfið, frjálsan vilja og persónuleikann í ljósi þekkingar læknisfræðinnar og velti upp spurningunni hvort maðurinn sé meiri tilfinningavera en skynsemisvera. Að lokum freistast ég til að staðsetja hugtök heimspekinnar í heilann.
  Heimspekikenningar sem liggja að baki læknisfræðinni.
  Heimspekikenningar sem liggja að baki læknisfræðinni eru verufræði, þ.e. reyndarhyggja og hughyggja og þekkingarfræði, þ.e. raunhyggja, rökhyggjan, róttæk eða neikvæð efahyggja og skynsemi.
  Saga læknisfræðinnar í heimspekilegri greiningu.
  Í sögu læknisfræðinnar tókust á rökhyggjan og raunhyggjan. Á forsögulegum tíma greindi læknisfræðin sig frá andalækningum með því að fara úr hughyggju í reyndarhyggju. Í fornöld kom rökhyggjan inn í heimspekina og síðan í læknisfræðina, en þá tók læknisfræðin mikil framfaraspor undir samþættingu rökhyggjunnar og raunhyggjunnar. Á miðöldum glataðist hinn gríski menningararfur í vestur Evrópu, bæði heimspekin og læknisfræðin, en varðveittist í arabaheiminum. Í lok miðalda endurheimtist hann með komu aristotelisma og í upphafi nýaldar með komu grískra flóttamanna til norður Ítalíu við fall austurrómverska ríkisins. Þá hófst endurreisn náttúrvísinda og skurðlækninga með innkomu raunhyggjunnar, en vegna sterkrar rökfræði hefðar miðalda sat lyflæknisfræðin eftir í getgátu læknisfræði með vessakenningu fornaldar allt fram á lok nýaldar. Í upphafi nútímans kom raunhyggjan loks af fullum þunga inn í lyflæknisfræðina og nútíma læknisfræði þekking byggir á samruna rökhyggjunnar og raunhyggjunnar.
  Læknisfræðin skýrir heimspekileg vandamál.
  Tvíhyggja heimspekinnar um aðskilnað sálar og líkama olli vanda við að útskýra hvernig maðurinn gæti haft frjálsan vilja. Sjálf læknisfræðinnar byggir á reyndarhyggju og starfeigindakenningu (functionalism) Hilary Putnam, að hugurinn sé óefnisleg starfsemi hins efnislega heila. Vitræn taugalæknisfræði staðsetur með starfrænni myndgreiningartækni vitræn einkenni í heilanum. Sjálfið er heild allrar starfsemi heilans sem skiptist í mismunandi einingar, vitræna Sjálfið, geðræna Sjálfið og líkamlega Sjálfið. Sérhver eining Sjálfsins er samsett úr mismunandi starfskerfum sem vinna saman. Vitundin er hugsanir, sem með sértækri athygli beinast alltaf að viðfangi í hinum ytri heimi eða eigin hugsunum með sjálfsskoðun. Frelsi viljans skýrist af líffræðilegum fjölbreytileika og persónuleikinn er lýsing annarra á Sjálfi manns. Maðurinn er meiri tilfinningavera en skynsemisvera því má draga í efa að fullyrðingu Aristotelesar, að eiginverk mannsins sé skynsemin og að hún greini okkur frá öðrum dýrum. Að lokum er freistast til að staðsetja í heilanum samkvæmt vitrænu taugasálfræðinni þau hugtök sem rædd hafa verið.
  Niðurstaða: Samspil heimspeki og læknisfræði er margvíslegt og mikið. Vestræn heimspeki hefur mótað vestræna læknisfræði og gert hana einstaka í samanburði við læknisfræði hefðir annarra menningarheima. Samspil heimspekinnar og læknisfræðinnar eru ekki einungis á annan veginn, því heimspekileg vandamál eru leysanleg á grundvelli læknisfræðinnar, um aðskilnað sálarinnar og líkamans, Sjálfið, vitundina, frjálsan vilja og persónuleikann.

Samþykkt: 
 • 10.5.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/15067


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA.ritger.BjrnEinarsson.pdf796.16 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna