Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/15073
Á síðustu árum hafa reglulega birst fréttir af skotárásum í bandarískum skólum þar sem þungvopnaðir einstaklingar ganga berserksgang og skjóta samnemendur sína og kennara. Frjálslynd skotvopnalöggjöf Bandaríkjanna er alla jafna sögð útskýra skotárásirnar. Árásirnar hafa þó ekki einskorðast við Bandaríkin. Viðlíka árásir hafa átt sér stað í Kanada og í Evrópu, en þar eru tilfellin þó færri. Í þessari ritgerð er leitast við að útskýra mikinn mun á tíðni skotárása í Bandaríkjunum og annars staðar. Einnig er skoðað hvort skotárásir séu afsprengi frjálslyndra skotvopnalaga eða annarra þátta í samfélaginu. Fjallað er um bandaríska skotvopnamenningu og sögu skotvopna. Bandarísk skotvopnalöggjöf er skoðuð ásamt breytingum sem á henni hafa orðið. Til samanburðar eru skotvopnalög í Kanada, Bretlandi og á Íslandi einnig skoðuð. Skotárásir eru skilgreindar og afdrifaríkustu árásir síðustu ára eru skoðaðar. Sjónarmið fjögurra kenninga leiddu í ljós félags- og persónulega þætti hjá árásarmönnum sem gætu útskýrt skotárásir. Þessir þættir eru skoðaðir ásamt áhrifum frá poppmenningu en skotárásarmenn virðast margir hverjir vera undir áhrifum bíómynda og tónlistar. Umfjöllun fjölmiðla um skotárásir hafa leitt af sér eftirhermuáhrif en í ljós kom mikill samhljómur á milli nokkurra skotárása. Aðgengi að skotvopnum er einnig veigamikill þáttur þegar kemur að skotárásum. Flestir árásarmannana áttu í litlum vandræðum með að útvega sér skotvopn. Niðurstöður benda til þess að skotvopnamenning útskýri að stórum hluta háa tíðni skotárása í Bandaríkjunum, en aðrir þættir virðast einnig hafa áhrif. Ennfremur sýna niðurstöður að þær breytingar sem gerðar hafa verið á skotvopnalögum í kjölfar skotárása eru gerðar á röngum forsendum.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BA_AsbjornTryggvi.pdf | 302.45 kB | Open | Heildartexti | View/Open |