Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15076
Árið 1934 var stofnaður heimavistarskóli í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Á þessum tíma voru svokallaðir farskólar í meirihluta í sveitum landsins en þóttu orðið afar óhentugir til að sinna því meginhlutverki skólanna, að mennta börn og búa þau undir lífið. Íbúar í tveimur fámennum hreppum í Djúpinu, Nauteyrar- og Reykjarfjarðarhreppar, ákváðu að taka málin í sínar hendur og stofnuðu Reykjanesskólann undir handleiðslu Aðalsteins Eiríkssonar, sem varð jafnframt fyrsti skólastjórinn í Reykjanesi.
Aðalsteinn var mikill menntafrömuður og hafði árið 1933 skrifað merkilega grein um menntamál þar sem hann lýsti ítarlega hugmyndum sínum um það hvernig hægt væri að efla skólastarfið í sveitum landsins. Þessar hugmyndir sínar fékk hann tækifæri til að gera að veruleika í Reykjanesskóla með góðum stuðningi áhugasamra hreppsbúa. Meðal þess sem Aðalsteinn lagði mikla áherslu á var að tengja námið daglegu lífi í sveitunum og virkja börnin til þátttöku jafnt í félagslífi sem uppbyggingarstarfi skólans.
Náttúrufar á Reykjanesi mótaði mjög allt skólastarfið, ekki síst jarðhitinn sem bæði bauð upp á ýmsa möguleika til garðyrkju og var einnig notaður til að hita upp sundlaug á staðnum. Vörðu nemendur stórum tíma af námi sínu í sundlauginni og voru látnir taka þung sundpróf.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Kolbrún Soffía Arnfinnsdóttir.pdf | 842.9 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |