is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15104

Titill: 
  • Haemophilus influenzae: Aðgreining frá Haemophilus haemolyticus og hjúpgreining með multiplex PCR aðferð
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
  • Bakteríur af ættkvíslinni Haemophilus eru Gram neikvæðir stafir og finnast helst í efri loftvegum manna. Þær eiga það sameiginlegt að þurfa hemin, niðurbrotsefni blóðs til að vaxa. Haemophilus influenzae (Hi) er algengust þeirra til að valda sýkingum. Hi er annaðhvort með eða án fjölsykruhjúps. Hjúpgerðir eru flokkaðar eftir ónæmisfræðilegum mismun í byggingu fjölsykranna. Alls hefur verið lýst sex hjúpgerðum en þær nefnast a, b, c, d, e og f. Áður en bólusetningar gegn hjúpgerð b (Hib) hófust var Hib orsök 95% ífarandi sýkinga af völdum Hi. Nú til dags eru hjúplausir Hi stofnar algengastir. Þeir valda alvarlegum sýkingum mun sjaldnar en Hib, eru algengir í örverusambýli öndunarfæra og sýkja helst fólk með skertar ónæmisvarnir. Hi smitast með úða- og snertismiti milli manna.
    Haemophilus haemolyticus finnst í nefkoki manna. Þar til nýlega var talið að H. haemolyticus væri sjaldan eða aldrei að valda sýkingum. Nú til dags er vitað um tilfelli þar sem H. haemolyticus hefur verið misgreindur sem hjúplaus Hi. H. haemolyticus er mjög líkur hjúplausum Hi þegar horft er til genamengisins. Erfitt getur reynst að greina á milli tegundanna þar sem H. haemolyticus hefur í sumum tilfellum misst hæfileikann til að sýna hemólýsu á blóðagar, en það er mest notaða aðferðin til að greina á milli tegundanna.
    Tíðni óhemólýtískra H. haemolyticus er óþekkt hér á landi. Eins er ekki þekkt hvaða hjúpgerðir eru í innsendum sýnum frá sjúklingum hér á landi. Því var markmið þessarar rannsóknar að þróa multiplex PCR aðferð til að kanna hvort H. haemolyticus stofnar í sýnum frá sjúklingum send á Sýklafræðideild Landspítalans árið 2012 hafi verið greindir sem Hi. Einnig var ætlunin að þróa multiplex PCR aðferð til að hjúpgreina Hi stofna úr sjúklingasýnum send á Sýklafræðideild Landspítalans árið 2012.
    Í rannsóknina fengust 511 Hi stofnar sem greindir voru með hefðbundnum greiningarðaferðum á Sýklafræðideild Landspítalans árið 2012. Erfðaefni stofnanna var einangrað og greining gerð með multiplex PCR aðferð.
    Tvær multiplex PCR aðferðir voru settar upp. Til aðgreiningar á Hi og H. haemolyticus var notast við fucK og hpd genin en H. haemolyticus á ekki að hafa þau gen í erfðamengi sínu. Multiplex PCR aðferð til hjúpgreiningar á Hi var sett upp í tvö hvörf. Í fyrra hvarfinu var notast við hjúpgerðarsértæk prímerapör fyrir hjúpgerðir a, b og d, seinna hvarfið innihélt hjúpgerðarsértæk prímerapör fyrir hjúpgerðir c, e og f. Bæði hvörfin innihéldu innra kontról sem greindi hvort Hi væri með hjúp eða ekki.
    Aðgreining Hi og H. haemolyticus með multiplex PCR aðferðinni sýndi að enginn 511 Hi stofnanna sem greindust á Sýklafræðideild Landspítalans árið 2012 var í raun H. haemolyticus. Af stofnunum 511 reyndust 6,3% stofnanna einungis hafa fucK genið, 2,3% höfðu einungis hpd genið og 91,4% stofnanna höfðu bæði genin í erfðamengi sínu. Af 453 Hi stofnum sem voru hjúpgreindir greindist aðeins einn með hjúp sem var af hjúpgerð e, allir hinir voru hjúplausir Hi.
    Rannsókn þessi sýndi að multiplex PCR er vel hægt að nota til aðgreiningar milli Hi og H. haemolyticus. Tæmandi líkur eru á því að óhemólýtískur H. haemolyticus hafi verið misgreindur sem Hi á Sýklafræðideild Landspítalans árið 2012. Multiplex PCR aðferðina þarf að þróa frekar vegna ósértækrar mögnunar en niðurstöður hennar eru í samræmi við erlendar rannsóknir sem segja að hjúplausir Hi séu í miklum meirihluta meðal Hi sýkinga.

Samþykkt: 
  • 14.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/15104


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Diplómaritgerð- Lokaútgáfa - Jana Birta Björnsdóttir.pdf2.08 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna