Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15116
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort umbun í formi peninga hafi áhrif á sjónræna athygli og hvort áhrif umbunar alhæfast á milli bæði mismunandi áreita og verkefna sem veita ekki umbun. Með umbun er vísað til áreitis eða atburðar sem kemur í kjölfar hegðunar og eykur líkur á að hegðun verði endurtekin í svipuðum aðstæðum. Einnig var athugað hvort umbun hefði áhrif á ýfingu í öðru verkefni, en ýfing er ferli sem verður til þess að einstaklingar eru fljótari að sjá það sem þeir hafa nýlega séð og/eða það sem skiptir þá máli. Í þessari rannsókn var nýtt umbunarverkefni notað til að kanna áhrif umbunar á athygli meðal fjögurra þátttakenda. Settar voru fram fjórar tilgátur og voru þær rannsakaðar í tveimur tilraunum. Í fyrri tilrauninni var sett fram ein tilgáta: (1) hlutfall réttra svara verður hærra við markáreiti sem veitir háa umbun en við áreiti sem veitir lága umbun. Í seinni tilrauninni voru settar fram þrjár tilgátur: (2) meðalsvartími verður styttri þegar markáreiti er í sama lit og veitt hafði háa umbun í tilraun 1 en þegar markáreitið er í sama lit og veitt hafði lága umbun. (3) meðalsvartími verður lengri þegar truflarar eru í sama lit og veitt hafði háa umbun í tilraun 1 en þegar truflarar eru í sama lit og veitt hafði lága umbun. (4) ýfingaráhrif verða meiri við lit sem veitt hafði háa umbun í tilraun 1 en við lit sem veitt hafði lága umbun. Fyrsta tilgátan stóðst hjá tveimur þátttakendum af fjórum. Önnur tilgátan stóðst ekki en gaf vísbendingar í rétta átt hjá tveimur þátttakendum. Þriðja tilgátan stóðst hjá tveimur af fjórum þátttakendum en fjórða tilgátan stóðst hjá einum þátttakanda af fjórum. Niðurstöðurnar benda til þess að umbun hafi áhrif á athygli og virðast áhrifin alhæfast í einhverjum mæli á milli ólíkra verkefna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrif umbunar á sjónræna athygli.pdf | 1,64 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |