Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15181
Afleiðingar vímuefnaneyslu eru mjög alvarlegar og er hætt við að fólk þrói með sér geðröskun í kjölfar neyslunnar. Vímuefnaröskun fylgja oft aðrar geðraskanir og eru lyndisraskanir með þeim algengustu. Þunglyndi hefur verið tengt kannabisneyslu og benda rannsóknarniðurstöður í þá átt að neyslan komi á undan en þunglyndi fylgi í kjölfarið. Samband geðhvarfa við vímuefnaröskun er allt annað. Geðhvörf hafa verið tengd við örvandi neyslu sem er talin koma í kjölfar lyndisröskunar. Sjálfshjálpartilgátan hefur verið nefnd í þessu samhengi en algengt er að einstaklingar sem hafa upplifað oflætis- eða örlyndistímabil sæki í örvandi efni þegar þunglyndið tekur völdin. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna sambandið á milli vímuefna- og lyndisraskana. Þátttakendur voru fengnir úr rannsókn SÁÁ og Íslenskrar erfðagreiningar sem höfðu þar að auki lokið SSAGA-II greiningarviðtali, því er um aftursýna rannsókn að ræða. Þátttakendur voru 112, 66 karlar og 46 konur, sem öll voru greind með lyndisröskun ásamt hæði ólöglegra eða lyfseðilsskyldra efna. Sex tilgátur voru prófaðar. Niðurstöður benda til þess að samsláttur vímuefnaröskunar og þunglyndis sé algengari hjá konum en körlum en kynjahlutföllin eru nánast jöfn þegar kemur að samslætti vímuefnaröskunar við geðhvörf. Niðurstöðurnar benda til þess að samsláttur vímuefnaröskunar og þunglyndis sé algengari hjá konum en körlum en nær enginn munur var á hlutfalli karla og kvenna hjá þeim sem höfðu samslátt geðhvarfa við vímuefnaröskun. Þegar samband lyndisröskunar og vímuefnahæðis var skoðað fékkst ekki marktekt, en niðurstöður benda til þess að kannabishæði sé algengara en hæði annarra ólöglegra og lyfseðilsskyldra efna hjá þeim sem hafa samslátt vímuefnaröskunar við þunglyndi og að hæði örvandi efna og kannabishæði sé jafnalgengt en hæði annarra ólöglegra og lyfseðilsskyldra efna hjá þeim sem hafa samslátt vímuefnaröskunar og geðhvarfa. Niðurstöður benda til þess að kannabishæði hefjist áður en þunglyndisgreining kemur fram þrátt fyrir að ekki væri marktækur munur á meðalaldri við upphaf kannabisneyslu og þunglyndis. Þá benda niðurstöður til þess að örvandi hæði hefjist áður en geðhvörf koma fram.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS-ritgerð Rebekka.pdf | 287.41 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |