Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15271
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort ferðaþjónustuaðilar sjái tækifæri í afþreyingarferðum vegna stækkunar Vatnajökulsþjóðgarðs og ef svo er í hverju þessi tækifæri felast. Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem hefur verið í örum vexti bæði hérlendis og erlendis. Fjölgun ferðamanna á hálendi Íslands er vísbending um vaxandi áhuga á umhverfinu, sér í lagi lítt snortinni náttúru. Umhverfi vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs einkennist meðal annars af víðernum og eldvirkni og þar eru Langisjór og Eldgjá sem bættust við þjóðgarðinn með stækkun hans sumarið 2011.
Í rannsókninni sem hér er kynnt voru tekin viðtöl við sex aðila í ferðaþjónustu sem fara meðal annars skipulagðar ferðir með ferðamenn um þjóðgarðinn. Efni rannsóknarinnar er tengt fræðum um þjóðgarða og það aðdráttarafl sem þeir hafa fyrir ferðaþjónustu, tækifæri til nýsköpunnar sem urðu til við stækkun þjóðgarðsins, byggðaþróun, náttúru- og víðernisferðamennsku og uppbyggingu á dreifbýlissvæði Skaftárhrepps. Einnig er lögð áhersla á Vatnajökulsþjóðgarð, Skaftárhrepp, Langasjó og Eldgjá ásamt fyrirhugaðar Hólmsár- og Búlandsvirkjunarframkvæmdir.
Niðurstöður eru þær að með stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs gefast möguleikar á frekari eflingu ferðaþjónustunnar með því að styrkja böndin á milli ferðaþjónustunnar og landbúnaðarins og með nýtingu þeirra klasaverkefna sem liggja fyrir.
Lykilorð: Þjóðgarðar, nýsköpun, byggðaþróun, Skaftárhreppur, Vatnajökulsþjóðgarður, Langisjór, Eldgjá og víðerni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ellen Ingibjörg Grétarsdóttir.pdf | 834,89 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |