Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15294
Markmið rannsóknarinnar var að skoða sambandið á milli sálfélagslegs vinnuumhverfis og heilsutengdra lífsgæða, hve mikinn hluta af breytileika heilsutengdra lífsgæða mætti rekja til sálfélagslegs vinnuumhverfis sem heildar og þriggja undirþátta þess, vinnuálags, sanngirni við stjórnun og hlutverkaágreinings og að varpa ljósi á sálfélagslegt vinnuumhverfi og heilsutengd lífsgæði þeirra sem starfa við umönnun fullorðinna. Um afturskyggna þversniðs rannsókn var að ræða, unnið var úr gögnum sem Vinnueftirlit ríkisins safnaði árið 2012 vegna vinnustaðaeftirlits, þátttakendur voru 479 og meðalaldur 41,33 ár. Lagðar voru fyrir 13 spurningar um sálfélagslegt vinnuumhverfi úr mælitækinu QPSNordic, HL-prófið um heilsutengd lífsgæði og bakgrunnsspurningar. Unnin var lýsandi tölfræði, meðaltöl og staðalfrávik og marktekt könnuð með t-prófi óháðra úrtaka og dreifigreiningu og Bonferroni leiðrétting notuð. Línuleg aðfallsgreining sýndi að sálfélagslegt vinnuumhverfi skýrir 15,2% af dreifingu heilsutengdra lífsgæða, áhrifin eru marktæk. Af þremur þáttum sálfélagslegs vinnuumhverfis skýrir hlutverkaágreiningur mest 13,9%. Sá þáttur sálfélagslegs vinnuumhverfis sem fékk lægsta skorið var vinnuálag (M=2,53). Allir þættir sálfélagslegs vinnuumhverfis voru marktækt lakari á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni. Meðaltal heilsutengdra lífsgæða mældist 48,78 stig, konur mælast með 49,07 stig en karlar 46,85, munur milli kynja var ekki marktækur en karlar mælast þó lakar á öllum þáttunum. Meðaltal heilsutengdra lífsgæða mælist 46,86 stig á höfuðborgarsvæðinu en 49,64 stig á landsbyggðinni,munurinn er marktækur. Þó að vinnuálag sé sá sálfélagslegi vinnuumhverfisþáttur sem fær lægsta skorið er það hlutverkaágreiningur sem hefur mest áhrif á heilsutengd lífsgæði þátttakenda, sálfélagslegt vinnuumhverfi og heilsutengd lífsgæði reyndust betri á landsbyggðinni og lakari meðal karla en kvenna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
KRISTÍN LINDA JÓNSDÓTTIR.pdf | 1.19 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |