is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15376

Titill: 
 • Á́hrif greiningar góðkynja einstofna mótefnahækkunar á lifun sjúklinga með mergæxli
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Mergæxli (MM) er sjúkdómur sem tekur til um 1% illkynja meina á alþjóðavísu og 12% illkynja meina í blóði/beinmerg. MM einkennist af fjölgun á einstofna plasmafrumum, einstofna mótefnum í blóði og/eða þvagi og líffæraskemmdum sem rekja má beint til sjúkdómsins. Góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) er ávallt undanfari MM, en einungis hluti MGUS þróast í illkynja mein.
  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif vitneskju um MGUS á lifun MM sjúklinga.
  Efniviður og aðferðir: Þýði rannsóknarinnar samanstóð af öllum einstaklingum sem greindir voru með MM í Svíþjóð á tímabilinu 1976-2005 (n=14.798). Þar af höfðu 394 sjúklingar verið greindir með MGUS sem undanfara MM. Upplýsingar um kyn, fæðingardag, greiningardag og aðra sjúkdóma lá fyrir hjá öllum sjúklingum og upplýsingar um tegund og styrk mótefna við greiningu MGUS lá fyrir hjá hluta þeirra. Kaplan Meier gröf voru notuð til að meta heildarlifun sjúklinga með tilliti til fyrri vitneskju um MGUS. Cox aðhvarfsgreiningarlíkan var notað til greiningar á þáttum sem hafa áhrif á lifun. Kí-kvaðrat próf var notað til að meta hvort marktækur munur væri á fjölkvillum milli þýðanna.
  Niðurstöður: MM sjúklingar með fyrri vitneskju um MGUS höfðu marktækt betri lifun borið saman við aðra MM sjúklinga (hlutfallsleg áhætta (RR) = 0,861; öryggisbil (öb) = 0,771-0,962). Miðgildi lifunar var 2,79 ár (öb = 2,56-3,25) ef fyrri vitneskja um MGUS lá fyrir en 2,14 ár (öb = 2,09-2,20) annars. M-prótín styrkur <5g/L við greiningu MGUS var tengdur verri lifun: RR = 1,858 (öb = 1,134-3,044) og einnig hækkandi greiningaraldur: RR = 1,043 (öb = 1,042-1,045). Kvenkyn og hærra greiningarár voru tengd betri lifun: RR = 0,864 (öb = 0,825-0,894) og 0,953 (öb = 0,951-0,953). Algengi fjölkvilla var að meðaltali 2,5 sinnum algengara í þýði MM sjúklinga með fyrri vitneskju um MGUS samanborið við aðra MM sjúklinga.
  Ályktanir: Í þessari lýðgrunduðu rannsókn, sem byggð er á öllum MM tilvikum í Svíþjóð á árunum 1976-2005, sýndum við í fyrsta skipti fram á að horfur MM sjúklinga með fyrri vitneskju um MGUS eru betri en annarra MM sjúklinga. Þrátt fyrir það er tíðni fjölkvilla margfalt hærri í þeim sem hafa fyrri sögu um MGUS. Af þessu má álykta að
  eftirfylgni einstaklinga með
  MGUS sé mikilvæg.

Samþykkt: 
 • 3.6.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/15376


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS-ritgerð loka.pdf3.44 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna