is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15382

Titill: 
  • Árangur endurlífgunar utan sjúkrahúsa á Íslandi árið 2012
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Rannsóknir á árangri endurlífgunar á Íslandi hafa sýnt fram á 16-21% lifun að útskrift af sjúkrahúsi. Þær hafa eingöngu náð til höfuðborgarsvæðisins eða Akureyrar og einblínt á endurlífganir vegna bráðra hjartasjúkdóma. Markmið rannsóknarinnar er:
    1. Að meta árangur endurlífgunar utan sjúkrahúsa á árinu 2012 með tilliti til helstu áhrifaþátta.
    2. Að kanna hvort munur sé á árangrinum milli höfuðborgarsvæðisins (hbs.), landsbyggðar þar sem atvinnu sjúkraflutningalið er á vakt allan sólarhringinn (þéttbýli) og landsbyggðarinnar þar sem hlutastarfandi sjúkraflutningamenn eru á bakvöktum (dreifbýli).
    3. Að niðurstöðurnar verði hluti af EuReCa (European Registry of Cardiac arrest) og nýtist því til fjölþjóðlegra rannsókna á árangri endurlífgunar.
    Efniviður og aðferðir: Fengnar voru skýrslur sjúkraflutningamanna eða lækna úr endurlífgunum utan sjúkrahúsa á árinu 2012 frá öllum rekstraraðilum sjúkraflutninga á Íslandi. Upplýsingar um viðbragðstíma sjúkrabíls fengust hjá Neyðarlínunni og upplýsingar um útskrift af sjúkrahúsi fengust úr sjúkraskrám á Landspítala og sjúkrahúsinu á Akureyri. Við úrvinnsluna var Utstein staðlinum fylgt. Kí-kvaðrat próf og t-próf voru notuð við tölfræðilega úrvinnslu og miðað við α=0,05 marktæktarkröfu.
    Niðurstöður: Upplýsingar fengust um 145 endurlífganir á landinu öllu en í 2 tilfellum fengust ekki upplýsingar um útskrift af sjúkrahúsi. Í 22 tilvikum voru sjúkraflutningamenn vitni að hjartastoppinu þar af útskrifuðust 8 (36,4%). Í 9 af þessum 22 tilvikum voru sjúklingar með stuðvænlegan upphafstakt þar af útskrifuðust 8 (88,9%). Eftirfarandi uppgjör byggir á þeim 121 endurlífgun þar sem sjúkraflutningamenn voru ekki vitni og upplýsingar um útskrift lágu fyrir. 70 endurlífganir fóru fram á hbs þar af útskrifuðust 13 (19%). Í þéttbýli utan hbs voru 21 endurlífgun þar af útskrifuðust 7 (33%). Í dreifbýli voru 30 endurlífganir þar af útskrifuðust 2 (7%) (p=0,05).
    Ef aðeins var miðað við tilfelli þar sem vitni var að hjartastoppi og sjúklingur var í stuðvænlegum takti voru 18 tilfelli á höfuðborgarsvæðinu þar af útskrifuðust 11 (61%). Í þéttbýli utan hbs voru 7 tilfelli þar af útskrifuðust 5 (71%). Í dreifbýli voru 6 tilfelli þar af útskrifuðust 2 (33%) (p=0,35).
    Stuðvænlegur upphafstaktur, bráða hjartavandamál sem orsök hjartastopps og vitni að hjartastoppi reyndust vera þættir sem stuðluðu að marktækt aukinni lifun að útskrift.
    Ályktanir. Árangur endurlífgunar utan sjúkrahúsa á Íslandi er góður í samanburði við önnur lönd.
    Árangurinn reyndist vera bestur í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins en lakastur í dreifbýli.
    Munurinn var á mörkum þess að teljast marktækur (p=0,05). Mikilvægt er að bæta skráningu á endurlífgunum utan sjúkrahúsa og þörf er á rannsóknum sem ná yfir lengri tíma heldur en eitt ár.

Samþykkt: 
  • 3.6.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/15382


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS-ritgerd_Bergthor.pdf849,45 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna