Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15390
Inngangur: Hægðatregða barna er algengt og langvinnt vandamál og er ástæða 3-5% heimsókna til barnalækna. Helstu einkenni hægðatregðu eru fátíðar, stórar og harðar hægðir, kviðverkir og sársauki við að losa hægðir. Hægðatregðu má flokka í tvo flokka þ.e. starfræna (e. functional) og vefræna (e. organic). Í meira en 90% tilvika er hægðatregða starfræn, þar sem engin vefræn orsök er greinileg. Markmið þessarar rannsóknar var annars vegar að skoða afdrif barna sem greinst hafa með hægðatregðu og hins vegar að sjá hvort lífstíll barna sem greinast með hægðatregðu sé öðruvísi en viðmiðunarhóps.
Efniviður og aðferðir: Haft var samband við foreldra 79 barna sem greindust með hægðatregðu og tóku þátt í klínískri fasa II rannsókn á hægðalosandi stílum. Þeir voru beðnir um að svara spurningarlista á netinu um afdrif og lífstíl barnanna með tilliti til hreyfingar, matarræðis og klósettvenja. Til samanburðar voru foreldrar barna, sem ekki höfðu fengið hægðatregðugreiningu, beðnir um að svara spurningarlista um lífstíl þeirra. Fengið var skriflegt upplýst samþykki fyrir þátttöku í rannsókninni. Notuð voru kí-kvaðrat próf til að sjá hvort að marktækur munur væri á hópunum.
Niðurstöður: Alls tóku foreldrar 191 barns þátt í rannsókninni þar af 60 í hægðatregðuhópnum og 131 í viðmiðunarhópnum. Samtals fengu 24/60 (40%) barnanna sem greindust með hægðatregðu á Bráðamóttöku barna endurtekin einkenni hægðatregðu, 16/60 (27%) þurftu að leita sér læknisaðstoðar aftur og 20/60 (33%) fengu aftur lyf til tæmingar gefin um endaþarm. Algengasta lyfjameðferð barnanna var Sorbitol. Marktækur munur mældist á hægðatregðuhópnum og viðmiðunarhópnum með tilliti til hreyfingar á aldursbilinu 10-18 ára. Viðmiðunarhópurinn hreyfði sig bæði oftar í viku (p=0,012) og lengur hverju sinni (p=0,027). Einnig var munur á morgunmat hópanna en fleiri í viðmiðunarhópnum borðuðu hafragraut (p=0,019).
Ályktun: Stór hluti barna sem greinist með hægðatregðu á Bráðamóttöku barna fær endurtekin einkenni og um fjórðungur þarf að leita sér læknisaðstoðar aftur. Börn á aldrinum 10-18 ára sem fengið hafa hægðatregðu hreyfa sig marktækt minna en viðmiðunarhópur á sama aldri. Börn sem borða hafragraut í morgunmat eru ólíklegri til að fá hægðatregðu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrif lífstíls á hægðatregðu barna.pdf | 1,39 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
SandraS.pdf | 410,74 kB | Lokaður | Yfirlýsing |