is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15413

Titill: 
 • Alvarlegir hryggáverkar vegna hestaslysa og mögulegar forvarnir.
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur
  Hestamennska er vinsæl hjá Íslendingum og hefur iðkendum hennar farið fjölgandi síðasta áratug. Tíðni slysa tengdum hestamennsku hefur aukist í takt við þetta. Höfuð- og hryggáverkar eru taldir alvarlegustu áverkarnir sem hljótast af hestaslysum. Með aukinni hjálmanotkun hefur dregið úr tíðni höfuðáverka en búnaður til verndar hryggnum er ekki í almennri notkun. Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja faraldsfræði hryggáverka við hestaslys á Íslandi. Einnig er leitast við að kortleggja eðli og tilurð hryggáverkanna með mögulegar forvarnir í huga.
  Efni og aðferðir
  Gerð var afturskyggn rannsókn til að finna einstaklinga sem hlutu hryggáverka vegna hestaslysa á tímabilinu 1995-2012. Í raun var um tvö þýði að ræða. Fyrra þýðið samanstóð af einstaklingum sem komu á Landspítala vegna hryggbrota á árunum 1995-1998. Í seinna þýðinu voru einstaklingar sem komu á Landspítala vegna hestaslysa á árunum 1999-2012. Úrtökin úr báðum þýðunum voru þeir sem hlutu alvarlega áverka á háls-, brjóst-, eða lendahrygg vegna hestaslysa. Úrtökin úr þýðunum tveimur voru sameinuð og upplýsingar um einstaklinga í þeim skráðar. Skráð var kyn, fæðingarár, staðsetning hryggáverka með eða án mænu- eða úttaugaskaða, tími árs við óhapp og orsök slyssins. Af CT myndum af hryggsúlu var gerð áverka- og stöðugleikaflokkun samkvæmt AO flokkuninni. Þá voru forritin Mimics og Ansys notuð til að teikna upp þrívíddarmódel og kortleggja eitt af óstöðugu hryggbrotunum. Út frá upplýsingum um hvernig slys átti sér stað voru settar fram tilgátur um álagsstefnur og brotakrafta. Tilgáturnar voru svo sannreyndar með því að prófa þær á þrívíddarmódeli af heilbrigðri hryggsúlu.
  Niðurstöður
  Á tímabilinu 1995-2012 komu 49 einstaklingar (37 kvk og 12 kk) á Landsspítala vegna alvarlegra hryggáverka eftir hestaslys. Meðalaldur kvennanna var rúm 36 ár en karlanna tæpt 51 ár en marktækt fleiri konur hlutu alvarlega hryggáverka á tímabilinu 1999-2012 (p=0.02). 35% aukning var á tíðni slysa á tímabilinu 2003-2006 miðað við 1999-2012 (p=0.05). Flest slysin áttu sér stað í maí. Alls greindust 71 hryggbrot á þessum 49 einstaklingum. Engar upplýsingar fundust um tvö þessara brota og var því ekki hægt að flokka þau. Um 84% flokkanlegu brotanna heyrðu til flokks A í AO flokkuninni. Af þeim voru um 57% fleyg-samfallsbrot (wedge-compressions fracture) sem tilheyra undirflokki A1. Rúm 10% reyndust vera af flokki B. Tæplega 6% brotanna voru á efri hálsliðum og lenda því utan AO flokkunarinnar. Af flokkanlegu hryggbrotunum voru 11 óstöðug, 4 þeirra leiddu til mænuskaða og önnur 4 til úttaugaskaða. Með forritinu Mimics tókst að teikna upp þrívíddarmódel af brotinni og heilbrigðri hryggsúlu og voru brotakraftar og stefnur prófaðar á heilbrigðu hryggsúlunni með forritinu Ansys.
  Ályktanir
  Hestaslys valda hryggbrotum sem sum hver eru óstöðug og valda mænu-eða úttaugaskaða. Hryggbrotin valda verulegu og stundum óafturkræfu heilsutjóni hjá hópi einstaklinga sem flestir eru hraustir fyrir og á besta aldri. Fleiri konur verða fyrir alvarlegum hryggáverkum vegna hestaslysa en karlar. Bundnar eru vonir við að aðferðin sem notuð var við útreikninga á álagsstefnum og brotakröftum geti orðið hornsteinn í þróun búnaðar sem verndar hryggsúlu hestamanna.

Samþykkt: 
 • 4.6.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/15413


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerð..pdf1.08 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna