Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15446
Notkun sjálfsmynda til sjálfskynningar er umfjöllunarefni þessarar ritgerðar. Með tilkomu veraldarvefsins og aukinnar notkunar samfélagsmiðla hefur almenningur að vissu leyti hafið sjálfskynningu á opinberum vettvangi, hvort sem hún er meðvituð eða ekki. Megin viðfangsefni riterðarinnar er notkun sjálfsmynda til sjálfskynningar, með því að birta valdar ljósmyndir úr eigin lífi getur einstaklingur skapað opinbera myndræna sjálfsmynd sína. Þar sem sjálfsmyndir og birting þeirra er dæmi um ímyndarsköpun á eigin persónu er athugavert að skoða hvernig fólk kýs að markaðsetja sjálft sig. Þá er reynt að velta fyrir sér hvaða hluti persónuleikans sé ráðandi í opinberu sjálfi einstaklings og í því samhengi eru kenningar Freud um skiptingu persónuleikans skoðaðar.
Þá er sjálfsmyndin einnig sett í samhengi við ljósmyndakenningar heimspekingsins Roland Barthes úr bókinni Camera Lucida, þar sem áhersla er lögð á tengsl ljósmyndarinnar við myndefnið. Þegar um sjálfsmyndir er að ræða eru ljósmyndarinn og viðfangsefnið sami einstaklingurinn og því þarf að gera ráð fyrir tengslunum þar á milli og afleiðingum þeirra á sannleiksgildi ljósmynda.
Til þess að varpa ljósi á notkun sjálfsmynda til sjálfssköpunar er mikilvægt að skoða tengsl ljósmyndar við tækniframfarir í sögulegu samhengi og er því farið lauslega í gegnum notkun almennings á ljósmyndum til sjálfskynningar í gegnum tíðina. Margir hafa séð tækifæri í tækninni og auknum möguleikum dreifingar ljósmynda og tekin eru dæmi um einstaklinga sem hafa nýtt sjálfsmyndir sér til frama.
Niðurstaðan ritgerðarinnar er sú að í tæknivæddu samfélagi nútímans er erfitt að gera sér fulla grein fyrir endanlegu markmiði sjálfsmynda. En þó er ljóst að slík myndbirting á opinberum vettvangi tekur þátt í að móta opinbera ímynd einstaklings.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerð Elísabet.pdf | 2,21 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |