is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15465

Titill: 
 • Sykursýki 2 í kjölfar meðgöngusykursýki
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur. Konur sem fá meðgöngusykursýki (MGS) eru líklegri til að fá sykursýki 2 (SS2) síðar á ævinni. Margar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á þessi tengsl en nýgengi SS2 í kjölfar meðgöngusykursýki hefur aldrei áður verið skoðað í íslensku þýði. Nýgengi MGS skv. rannsóknum sem enn eru í gangi hér á landi er um 4%.
  Niðurstöður rannsóknarinnar má nota til að bæta eftirfylgd kvenna sem greinast með meðgöngusykursýki og mögulega draga úr fylgikvillum sem fylgja ógreindri SS2.
  Efniviður og aðferðir. Þátttakendur skiptust í tvo hópa og var um tilfella-viðmiðarannsókn að ræða. Í tilfellahópi voru 53 mæður af höfuðborgarsvæðinu sem greindust með meðgöngusykursýki og fæddu á Landspítala, árin 2002-2003 og 2007-2008. Í viðmiðunarhópi voru 36 konur sem fæddu á sama tíma en voru ekki með MGS. Konurnar mættu til viðtals og mælinga á Göngudeild sykursjúkra LSH og undirgengust blóðrannsókn (fastandi blóðsykur og langtíma blóðsykurgildi, HbA1c). Tölfræðileg marktækni var miðuð við p-gildi ˂ 0,05.
  Niðurstöður. Þrjár af 53 konum (5,7%) í tilfellahópi höfðu greinst með sykursýki 2 eftir fæðingu en engin kvennanna í viðmiðunarhópi. Munurinn var ekki marktækur (p=0,15). Líkamsþyngdarstuðull (LÞS) í fyrstu mæðraskoðun var hærri hjá tilfellahópi, 28,0 ± 5,6 kg/m2 en 24,7 ± 4,3 kg/m2 hjá viðmiðunarhópi (p=0,002). LÞS í viðtali var 29,4 ± 6,4 kg/m2 hjá tilfellahópi en 26,3 ± 5,2 kg/m2 hjá konum í viðmiðunarhópi (p=0,014). Mittis-mjaðma hlutfall var hærra í tilfellahópi; 0,9 ± 0,08 á móti 0,8 ± 0,07 (p˂0,001) í viðmiðunarhópi. Fastandi blóðsykur var hærri hjá MGS konum; 5,3 ± 0,6 mmól/L miðað við 5,0 ± 0,4 (p=0,001) og HbA1c einnig marktækt hærra; 5,6 ± 0,4 á móti 5,3 ± 0,4 (p=0,001). Marktækt fleiri konur í tilfellahópi (35,4%) höfðu fastandi gildi sem benda til skerts sykurþols (>=5,6 mmól/L) miðað við viðmiðunarhóp (6,9%), p=0,005.
  Ályktanir. Konur sem fá meðgöngusykursýki eru þyngri við upphaf meðgöngu samanborið við konur sem ekki fá MGS. Fimm og tíu árum eftir meðgönguna eru þær þyngri, með hærra mittis-mjaðma hlutfall, hærri fastandi blóðsykur og hærra HbA1c samanborið við viðmiðunarhóp. Fleiri MGS konur féllu undir skilgreiningu á skertu sykurþoli en konur í viðmiðunarhópi og bendir það til aukinnar hættu fyrir þær á að fá SS2. Greining sykursýki á meðgöngu er áhættuþáttur fyrir SS2 síðar á ævinni. Ef til vill má hafa áhrif á þá þróun með því að upplýsa konur á meðgöngu um framtíðarhorfur og hjálpa þeim að viðhalda kjörþyngd með breyttu mataræði og aukinni hreyfingu.

Styrktaraðili: 
 • Rannsóknarverkefnið hlaut styrki frá Vísindasjóði LSH (A-2013-007), Sanofi og Novo-Nordisk.
Samþykkt: 
 • 5.6.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/15465


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS-ritgerð_Laufey Dóra Áskelsdóttir.pdf1.34 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna