is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15474

Titill: 
 • Bandvefsmyndun í beinmerg sjúklinga með mergæxli: Áhrif og horfur
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Mergæxli er ólæknandi, illkynja sjúkdómur í B-eitilfrumum sem einkennist af offjölgun plasmafrumna í beinmerg og seytrun á einstofna mótefnum. Sjúkdómurinn kemur einkum fram í einstaklingum eldri en 65 ára og er um 1% allra illkynja æxla. Mikill breytileiki er í lifun sjúklinga en þekkt er að ákveðnir þættir hafi áhrif á horfur, meðal annars aldur og erfðabreytileiki. Bandvefsmyndun í beinmerg er þekkt í mergæxlum en hefur verið mjög lítið rannsakað og áhrif þess á horfur að mestu óþekkt. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi bandvefsmyndunar í beinmerg sjúklinga með mergæxli og áhrif þess á lifun.
  Efniviður og aðferðir: Gagnasöfnun fór fram á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi og gögn voru fengin úr sjúkraskrám þaðan. Til að fá upplýsingar um alla sem greindust með mergæxli á árunum 2003 – 2011 var farið yfir öll beinmergssvör (N = 1500) mergæxlissjúklinga á tímabilinu. Gerð var ferilrannsókn þar sem metið var algengi bandvefsmyndunar í beinmerg við greiningu mergæxlis. Sjúklingar með bandvefsmyndun voru paraðir við sjúklinga án bandvefsmyndunar af sama kyni, greiningarári og fæðingarári svo framarlega sem unnt var. Metin var lifun milli hópa með Kaplan-Meier aðferð og Cox-líkani.
  Niðurstöður: Alls greindust 586 einstaklingar með mergæxli á Karolinska sjúkrahúsinu á árunum 2003 – 2011 en af þeim höfðu 223 (38%) bandvefsmyndun í beinmerg við greiningu. Borið saman við paraða sjúklinga án bandvefsmyndunar (N = 217) höfðu sjúklingar með bandvefsmyndun marktækt verri lifun (p = 0,0485). Munurinn var mestur hjá karlmönnum og hjá sjúklingum yngri en 65 ára. Jafnframt voru lífshorfur verri eftir því sem bandvefsmyndunin var meiri.
  Ályktanir: Bandvefsmyndun í beinmerg er algeng hjá sjúklingum með mergæxli og hefur slæm áhrif á horfur. Kanna þarf betur undirliggjandi ástæður þessa til dæmis svörun meðferðar, fylgikvilla og tengsl við aðra þætti sem hafa áhrif á horfur.

Samþykkt: 
 • 5.6.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/15474


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ritgerd.pdf1.66 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna