Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15506
Eitt mikilvægasta starf stjórnenda í fyrirtækjum er stefnumótun þess. Við stefnumótun þurfa stjórnendur að spyrja spurninga á borð við: Hvar er fyrirtækið statt, hvernig viljum við að það þróist og hvernig ætlum við að komast þangað? Stefnumótun er langtímaáætlun stjórnenda og snýst um það hvernig fyrirtækið ætlar að ná ákveðnum markmiðum. Stjórnendur þurfa þá alltaf að vera á tánum og fylgjast vel með stöðu fyrirtækisins á markaði til að geta brugðist við breyttum aðstæðum, tækninýjungum eða nýjum keppinautum.
Við upphaf stefnumótunar er undirbúningsvinnan mikilvæg. Þá þarf að skoða umhverfi atvinnugreinarinnar og umhverfi fyrirtækis, það er kallað: ytri og innri greining. Þá þarf ekki aðeins að greina stöðu fyrirtækisins á markaði, heldur einnig samkeppni og hvaða tækifæri og ógnanir, styrkleikar og veikleikar eru í umhverfinu. Byggt á niðurstöðum þessarar greiningar eru síðan sett fram ný framtíðarsýn og markmið og út frá þessum markmiðum er stefnan búin til.
Stefnumótunin er undanfari mörkunar. Þegar stjórnendur fyrirtækis hafa skilgreint hvert það skal stefna, og hvar áherslurnar í starfseminni liggja, er mikilvægt að huga að mörkun. Þá þarf að skoða innri ásýnd fyrirtækisins, og gæta þess að öll samskipti við viðskiptavini og innra starf fyrirtækisins styðji við það sem fyrirtækið vill standa fyrir og þau markmið sem það vill ná. Þá er ytri ásýnd fyrirtækisins einnig mikilvæg, það er til að mynda mark (e. logo), einkennislitir og nýtt útlit. Allt þarf þetta að mynda heildstæða stefnu þannig markhópurinn fái sömu skilaboð eða sömu tilfinningu frá fyrirtækinu og sóst er eftir – að makhópurinn upplifi þá ímynd sem fyrirtækið vill skapa og viðhafa.
Hönnun og skapandi hugsun er því að segja má mikilvægur liður í mótun ásýnd fyrirtækja, en þá vinna stjórnendur fyrirtækja oftast náið með starfsmönnum auglýsingastofa. Í því ferli koma fram hugmyndir að nýrri eða endurbættri ásýnd fyrirtækis, þannig að heildstætt útlit og sömu skilaboð megi finna í öllu sem viðkemur fyrirtækinu. Stöðugt þarf að huga að þessu ferli og endurskoða það reglulega, hvað er gert vel, hvað má gera betur, með það að markmiði að ná enn betri árangri. Það er því mín niðurstaða, að í þessu ferli, sé heildstæð ásýnd mörkunarinnar lykilþáttur – það er að segja að markhópurinn fái skýr skilaboð og ávallt þau sömu frá fyrirtækinu, eigi markið og mörkunarferlið að heppnast vel.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
2013_BAlokaskjal_Jon.Cleon.pdf | 1,98 MB | Lokaður til...02.02.2222 | Heildartexti |